Heimastjórn Skotlands mun í næstu viku kynna frumvarp til laga um að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands, segir forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, Nicola Sturgeon. Um neyðarráðstöfun er að ræða en óttast er að Skotar missi tengsl við Evrópusambandið vegna útgöngu Bretlands úr ESB, segir Sturgeon.
Sturgeon staðfesti þessi áform heimastjórnarinnar á ársfundi skoska Þjóðarflokksins í morgun. Frumvarpið verður lagt fyrir skoska þingið í næstu viku.
Hún segist sannfærð um að Skotland hafi getu til þess að vera sjálfstætt ríki og úr því verði að skera áður en Bretland yfirgefur ESB svo hægt verði að vernda hagsmuni landsins.
Í september 2014 greiddu 55% Skota atkvæði með því að vera áfram hluti af Bretlandi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar greidd voru atkvæði um Brexit í vor greiddu 62% Skota atkvæði með því að vera áfram í ESB.