Ætla að senda Pútín „skilaboð“

Varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden.
Varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden. AFP

Joe Biden varaforseti Bandaríkjanna hafnar því að Hvíta húsinu hafi mistekist að bregðast við afskiptum Rússa í bandarísku forsetakosningunum. Í samtali við fréttastofu NBC sagði hann á dularfullan hátt að stjórnvöld í Washington myndu senda Rússum skilaboð, til að svara meintum tölvuárásum þeirra.

Spurður af hverju ríkisstjórnin hafi enn ekki brugðist við, viku eftir að bandarískir embættismenn sökuðu rússnesk stjórnvöld opinberlega um að hafa skipt sér af kosningunum, þagði Biden um stund og brosti svo háðskur á svip.

„Við erum að senda skilaboð,“ svaraði hann.

„Við höfum getuna til þess og skilaboðin munu verða send. Hann mun vita af því og það mun verða á tíma að okkar vali, og undir þeim kringumstæðum sem þau munu skipta mestu máli.“

Spurður hvort almenningur muni þá vita af því, svaraði Biden stuttorður: „Ég vona ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert