Bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að banna farsíma af gerðinni Samsung Galaxy Note 7 í öllu farþegaflugi í lofthelgi Bandaríkjanna í kjölfar fleiri en eitt hundrað tilfella þar sem símar af þeirri gerð hafa ofhitnað og í sumum tilfellum valdið eigendum sínum meiðslum. Samgönguráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti þetta í gær.
Flugmálastjórn Bandaríkjanna hafði áður hvatt flugfarþega til þess að hafa slökkt á farsímum af þessari gerð, pakka þeim ekki með farangri sem færi í farangursrými flugvéla og hlaða þá ekki í flugvélum. Haft er eftir Anthony Foxx, samgönguráðherra Bandaríkjanna, á fréttavef bandaríska dagblaðsins USA Today að ljóst sé að bannið komi sumum farþegum illa en öryggi allra um borð í farþegaflugvélum verði að vera í forgangi.
Suður-kóreska hátæknifyrirtækið Samsung lýsti því yfir á mánudaginn að framleiðsla á farsímunum hefði verið stöðvuð eftir að komið hefði í ljós að ný framleiðsla af símanum ofhitnaði líka.