Trump vill lyfjapróf fyrir kappræðurnar

Donald Trump á kosningafundinum í Portsmouth, New Hampshire, í dag.
Donald Trump á kosningafundinum í Portsmouth, New Hampshire, í dag. AFP

Forsetaframbjóðandinn Donald Trump leggur til að Hillary Clinton, frambjóðandi demókrata, verði látin gangast undir lyfjapróf fyrir næstu kappræður þeirra sem verða á miðvikudag.

Þessi orð lét Trump falla á kosningafundi í Portsmouth. „Við erum eins og íþróttamenn. Íþróttamenn, þeir láta þá taka lyfjapróf. Ég held að við ættum að taka lyfjapróf fyrir kappræðurnar. Hvers vegna gerum við það ekki?“

Á fundinum hélt Trump því fram að Clinton hefði stuðning bandarískra fjölmiðla. „Kosningarnar eru falsaðar af spilltum fjölmiðlum sem setja fram algjörlega rangar ásakanir og hreinar lygar,  allt í þeim tilgangi að hún verði kjörin forseti,“ sagði Trump.

Síðustu daga hafa margar konur stigið fram og sagt að Trump hafi áreitt þær kynferðislega. Ásakanarnir koma í kjölfar birtingar ummæla hans frá árinu 2005 þar sem hann sagðist fara með konur eins og hann vildi. Sjálfur segir Trump að um ófrægingarherferð sé að ræða og hefur hafið mikla sókn í árásum sínum á mótframbjóðanda sinn, Hillary Clinton.

Í Twitter-færslu sem Trump birti í dag sagði hann að sækja ætti Clinton til saka og setja hana í fangelsi. 

Trump segist þess fullviss að fjölmiðlar vinni gegn sér. „Annaðhvort vinnum við þessar kosningar eða við töpum þessu landi,“ sagði hann á kosningafundinum í dag. „Ég held að þetta sé síðasta tækifærið okkar til að vinna. Ég trúi því virkilega. Þetta mun ekki gerast aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert