Gestir Ocean Park skemmtigarðsins í Hong Kong syrgja nú risapönduna Jia Jia, sem náði þeim heiðri að verða elst allra risapanda sem dvalið hafa í dýragarði í heiminum. Jia Jia var 38 ára þegar hún var aflífuð, í kjölfar þess að heilsu hennar hafði hrakað mikið.
Tveimur fötum með blómum var komið fyrir fyrir utan heimkynni pandanna í minningarskyni. „Jia Jia tilheyrði Ocean Park fjölskyldunni og átti 17 dásamleg ár með íbúum Hong Kong og hennar verður sárt saknað,“ sagði á skilti fyrir utan búrið.
„Hún var alveg dásamleg. Svo eðlileg. Svo falleg,“ hefur AFP-fréttastofan eftir eldri konu sem var að heimsækja garðinn með barnabarni sínu.
Forsvarsmenn Ocean Park sendu í dag frá sér myndband í minningu Jia Jia, þar sem þeir starfsmenn sem unnu með pandabirninum minntust hennar.
„Ég óska henni friðar og veit að við kunnum að meta allt það sem hún gaf okkur, sem hún gaf íbúum Hong Kong og öllum okkar gestum,“ sagði Suzanne Gendron, framkvæmdastjóri garðsins í myndbandinu.
Til stendur að koma fyrir sérstöku „minningahorni“ fyrir Jia Jia í garðinum.
Jia Jia fæddist frjáls í Sichuan héraðinu í Kína 1978, en kínversk yfirvöld gáfu Hong Kongbúum risapönduna árið 1999 til að halda upp á að tvö ár voru liðin frá því að Bretar afhentu Kínverjum Hong Kong, sem áður var undir breskri stjórn.
Færri en 2.000 risapöndur lifa enn villtar samkvæmt upplýsingum frá World Wildlife Fund og má fækkun þeirra ekki hvað síst rekja til þess að heimkynni pandanna hafa verið látin víkja fyrir byggingasvæðum.