Sænska Nóbelsakademían dregur nú meira og meira í efa að tónlistarmaðurinn Bob Dylan muni láta sjá sig í Stokkhólmi til að taka á móti Nóbelsverðlaununum, sem tilkynnt var um fyrr í mánuðinum að féllu honum í skaut í ár.
Ekki hefur heyrst orð frá Dylan frá því að tilkynnt var að hann hlyti bókmenntaverðlaun Nóbels og nú hafa upplýsingar um Nóbelsverðlaunin einnig verið fjarlægðar af opinberri vefsíðu tónlistarmannsins, að því er segir í frétt norska fréttamiðilsins NTB.
Frétt mbl.is: Bob Dylan fær Nóbelinn
Aftonbladet kveðst hafa heimildir fyrir því að Dylan sjálfur hafi fyrirskipað að upplýsingarnar yrðu teknar út af síðunni.
Svíarnir efast því sífellt meira um að Dylan muni láta sjá sig í Stokkhólmi til að taka á móti verðlaununum sem afhent verða öllum Nóbelsverðlaunahöfum þessa árs við hátíðlega athöfn 10. desember.
Nóbelsakademían hefur tjáð sig um að gera verði ráð fyrir að tónlistarmaðurinn mæti ekki. „Það hefur oft gerst að ekki náist í verðlaunahafa þegar tilkynnt er um verðlaunin, en það hefur væntanlega aldrei tekið svona langan tíma,“ hefur Berlingske Tidende eftir Odd Zschiedrich, talsmanni akademíunnar.