Twitter og Netflix óvirkt eftir netárás

Efnisþjónustan Netflix, vefsíðan Airbnb og samfélagsmiðillinn Twitter eru meðal þeirra …
Efnisþjónustan Netflix, vefsíðan Airbnb og samfélagsmiðillinn Twitter eru meðal þeirra fyrirtækja sem urðu fyrir truflunum. AFP

Netárásir gerðu stóran hluta internetsins óvirkan í dag og voru vefsíður, miðlar og efnisveitur á borð við Twitter, Airbnb og Netflix gerðar óaðgengilegar fyrir milljónir notenda í Bandaríkjunum og Evrópu.

Árásirnar voru ítrekað gerðar á innviði internetsins, lokað var fyrir aðgang að vefsíðum og ýmsir veikleikar netsins afhjúpaðir að sögn fréttastofu AFP.

Netárásirnar eru nú m.a. til athugunar hjá þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA) og Bandarísku alríkislögreglunni (FBI).

Frétt mbl.is: Twitter liggur niðri vegna netárásar

Á meðan á árásunum stóð gátu netverjar ekki birt færslur á samfélagssíðum, verslað, horft á myndbandsupptökur eða spilað tölvuleiki á netinu.

Netþjónustufyrirtækið Dynamic Network Services Inc. (Dyn) sem er ein stærsta netþjónusta heims tilkynnti um ellefuleytið í morgun að ráðist hefði verið á net­kerf­i fyr­ir­tæk­is­ins í austurhluta Bandaríkjanna. Fyrirtækið fullyrti að það yrði búið að sigrast á vandanum innan tveggja klukkustunda, en um fjögurleytið í dag þá var fyrirtækið aftur að verjast árásum.

„Verkfræðingar okkar halda áfram að rannsaka málið og milda áhrif þeirra árása sem beindust gegn netkerfum Dyn,“ sagði á vefsíðu fyrirtækisins.

Meðal þeirra vefsíða sem urðu fyrir truflunum voru Reddit, handverkssölusíðan Etsy, hugbúnaðarhönnun Github, fjölmiðlarnir CNN, Guardian, HBO og People tímaritið, sem og  greiðsluþjónusta PayPal.

Kort sem birt var af þeim stöðum sem yrðu fyrir truflunum vegna netárásanna náði upphaflega yfir stóran hluta austurstrandar Bandaríkjanna og Texas, en síðar í dag voru áhrif árásanna einnig greinanleg í Miðvesturríkjunum og Kaliforníu, og þá urðu notendur Netflix og Twitter í Evrópu einnig fyrir truflunum.

Netþjónusta Amazon, sem hýsir nokkur vinsælustu vefsvæðin, m.a. Netflix og vefsíðu Airbnb, varð einnig fyrir truflunum. Fyrirtækið tilkynnti um eittleytið í dag að það væri búið að leysa vandan, en varð að draga í land þremur tímum síðar þegar sambærileg vandamál komu upp hjá netþjónustunni á öðrum landsvæðum.

Undir kvöldið leit þó út fyrir að dregið hefði úr árásunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert