Tók símamyndir af pyntingunum

Breski bankastarfsmaðurinn Rurik Jutting, sem nú er fyrir dómi í Hong Kong, sakaður um morð á tveimur indónesískum konum, segist vera saklaus af morðunum og ber við skertri dómgreind.

Við upphaf réttarhaldanna reyndi Jutting að lýsa sig sekan um manndráp af gáleysi en þeirri yfirlýsingu var hafnað. Þessi fyrrverandi starfsmaður hjá Bank of America á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann fundinn sekur, en dómsmálið yfir honum er stærsta morðmál í Hong Kong um árabil. Jutting er talinn sakhæfur og hefur setið í öryggisfangelsi frá því að hann var handtekinn.

Frétt mbl.is: Játar ekki á sig morðin

Frétt mbl.is: Myrti tvær og talinn sakhæfur

Það var í nóvember 2014 sem lögreglan í Hong Kong var kölluð að íbúð Juttings, þar sem fundust lík þeirra Sumarti Ningsih og Seneng Mujiasih. Lík Mujiasih var með hnífstungur á hálsi og þjóhnöppum, en rotnandi líki Ningsih  hafði verið komið fyrir í ferðatösku.

Fréttavefur BBC segir kviðdómendur í dag hafa verið varaða við að þeim yrðu sýndar mjög óþægilegar myndir sem Jutting tók á síma sinn af þeim pyntingum sem hann beitti Ningsih. 

Saksóknarinn John Reading sagði Jutting hafa pyntað Ningsih í íbúð sinni í þrjá daga áður en hann myrti hana í sturtunni með skörðóttum hníf. Hann faldi líkið að því loknu í ferðatösku.

Nokkrum dögum síðar hitti hann Mujiasih á bar í Wan Chai og fór með hana heim til sín. Hann skar hana síðar á háls.

„Í einni af yfirheyrslunum hjá lögreglu útskýrði hinn ákærði hvernig hann fór út á kvöldin í leit að bráð og að Mujiasih hafi verið bráð hans,“ sagði Reading.

Morðin vöktu mikla at­hygli í Hong Kong enda morð fátíð í þess­ari sjö millj­óna borg sem þykir mjög ör­ugg. Í kjöl­farið fór af stað umræða um það sem ætti sér stað neðanj­arðar í fjár­mála­hverfi borg­ar­inn­ar, en bæði kókaín og kyn­lífs­leik­föng fund­ust í íbúð Jutt­ings, sem er skammt frá rauða hverf­inu þar sem hann var reglu­leg­ur gest­ur. Kon­urn­ar, sem voru báðar á þrítugsaldri, störfuðu þar báðar.

Farandverkamenn í Hong Kong fylgjast náið með réttarhöldunum yfir Jutting og hafa halidð mótmælafundi fyrir utan dómsalinn þar sem þeir krefjast aukinna réttinda.

Rurik Jutting er ákærður fyrir morð á tveimur konum, hann …
Rurik Jutting er ákærður fyrir morð á tveimur konum, hann ber við skertri dómgreind og segist saklaus. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert