„Ef þú öskrar þá refsa ég þér“

AFP

Kviðdómendur í morðmáli gegn breska bankamanninum Rurik Jutting horfðu í dag á skelfilegt myndskeið tekið upp á síma hans. Þar sést Jutting ráðast á indónesíska konu, en rotnað lík hennar fannst síðar í ferðatösku í íbúð hans í Hong Kong.

Jutting, sem er 31 árs, er ákærður fyrir morð á tveimur indónesískum konum sem myrtar voru í íbúð hans fyrir tveimur árum. Jutting, sem áður starfaði sem verðbréfamiðlari hjá Bank of America-Merrill Lynch í Hong Kong, lýsti yfir sakleysi sínu þegar morðákæran yfir honum var lesin upp í gær.  Hann játaði hins vegar að vera sekur um manndráp. Því hafnar saksóknari og segir að Jutting hafi myrt báðar konurnar.

Rurik Jutting.
Rurik Jutting. AFP

Frétt mbl.is: Tók símamyndir af pyntingunum

Myndskeiðið er um 20 mínútur að lengd og þar sést hann ráðast á fyrra fórnarlambið, Sumarti Ningsih, 23 ára, sem saksóknari segir að hafi verið pyntuð í þrjá daga eftir að hún kom í íbúð hans 25. október 2014. Jutting hafði boðið henni greiðslu fyrir kynlíf.

Fréttamenn fengu ekki að sjá myndskeiðið, sem var aðeins ætlað kviðdómendum, en þeir heyrðu hljóðin. „Viltu að ég slái þig? Ef þú segir já þá slæ ég þig einu sinni. Ef þú segir nei þá slæ ég þig tvisvar,“ heyrist Jutting segja á myndskeiðinu. „Ef þú öskrar þá refsa ég þér - skilurðu?“

Jutting spyr Ningsih ítrekað í myndskeiðinu hvort hún elski hann. Það eina sem heyrist frá fórnarlambinu er ýlfur. Saksóknari sýndi síðan nokkrar stillur úr myndskeiðinu af Jutting berum að ofan þar sem hann lýsir því fjálglega hvernig hann hafi drepið Ningsih.

Pyntingar, nauðganir og andlegt ofbeldi í þrjá daga

Í gær kom fram að hann hefði skorið hana á háls með skörðóttum hníf í sturtunni eftir að hafa neytt hana til þess að sleikja klósettskálina. „Fyrir um fimm mínútum síðan drap ég, myrti ég þessa konu,“ segir Jutting í myndskeiðinu og tekur fram að hann hafi neytt mikils magns af kókaíni og pyntað hana hrottalega. Í byrjun myndskeiðsins sést aðeins móta fyrir líkama Ningsih liggjandi á afkáralegan hátt í sturtunni. „Pyntingar, nauðganir og andlegt ofbeldi í þrjá daga,“ segir hann og bætir við „ég hef aldrei séð nokkurn jafn skelfdan.“

Meðal þess sem hann notaði við pyntingarnar voru tangir, kynlífsleikföng og belti. Að sögn Juttings er drottnun ávanabindandi. „Ég er pínulítið sorgmæddur því hún var góð manneskja en ég er ekki sakbitinn,“ segir Jutting í myndskeiðinu.

Jutting heldur áfram að tjá sig um kynlíf, ofbeldi og eiturlyf í myndskeiðinu. Þar talar hann um sjálfsfróun, eiturlyf, vænti og huldar fantasíur. Meðal annars fer hann orðrétt með senur úr Game of Thornes-þáttaröðunum. Í myndskeiðinu sést hann sjúga mikið magn af kókaíni í nös og tala um hvernig hann hneigist til þess að gera slæma hluti þegar hann er hátt uppi vegna kókaínneyslu.

Lík Ningsih og Seneng Mujiasih, 26 ára, fundust í íbúð Juttings aðfaranótt 1. nóvember 2014. Jutting skar Mujiasih á háls daginn áður, en hann hafði hitt hana á bar skammt frá heimili sínu og boðið henni fé fyrir kynlíf. Lík hennar fannst í stofunni en lík Ningsih fannst í ferðatösku úti á svölum íbúðarinnar.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert