Moskítóher gegn Zika-veirunni

Vísindamenn hafa smitað milljónir moskítóflugna af Wolbachia bakteríu sem dregur …
Vísindamenn hafa smitað milljónir moskítóflugna af Wolbachia bakteríu sem dregur úr getu þeirra til að smita fólk af ýmsum sjúkdómum, til dæmis Zika-veirunni. AFP

Her skipaður milljónum moskítóflugna verður sleppt í tilraunarskyni á vissum landsvæðum í Brasilíu og Kólumbíu snemma á næsta ári. Vísindamenn hafa átt við moskítóflugurnar með því að smita þær af bakteríu sem nefnist Wolbachia sem dregur úr getu þeirra til að smita fólk af ýmsum sjúkdómum, svo sem Zika-veiru, beinbrunasótt (e. Dengue fever) og chikungunya sótt, sem moskítóflugur bera með sér.

Tilgangur verkefnisins er því meðal annars að berjast gegn Zika-veirunni með smitberanum sjálfum. Zika-veir­an hef­ur þegar greinst í 70 lönd­um það sem af er ári. 

Heildarkostnaður verkefnisins er 18 milljónir dollara, eða sem nemur rúmum tveimur milljörðum króna, og kemur fjármagnið frá alþjóðlegum styrktaraðilum, meðal annars frá Bill and Melinda Gates Foundation, sem er í eigu auðkýfingsins Bill Gates. Stjórnvöld í Suður-Ameríku, Bandaríkjunum og Bretlandi taka einnig þátt í fjármögnun verkefnisins.

„Bólusetja“ moskítóflugur

Wolbachia er lífræn baktería sem smitar um 60% allra skordýra í heiminum en hefur ekki skaðleg áhrif á mannfólk, að sögn vísindamanna.

Tilraunaverkefni í Brasilíu, Kólumbíu, Ástralíu, Indónesíu og Víetnam hafa sýnt fram á virkni þessarar aðferðar, það er að „bólusetja“ moskítóflugur með bakteríunni. Útbreiðsla beinbrunasóttar hefur til dæmis minnkað á þeim svæðum þar sem moskítóflugum með Wolbachia bakteríuna var sleppt.  Nú vonast vísindamenn að árangurinn verði sami þegar kemur að Zika-veirunni.

Dr. Trevor Mundel, læknir hjá Bill and Melinda Gates stofnunni sagði í samtali við BBC að Wolbachia bakterían gæti verið byltingarkennd vörn í baráttunni gegn sjúkdómum sem dreifast með moskítóflugum. „Þetta er viðráðanleg og sjálfbær aðferð sem virðist veita vörn gegn Zika-veirunni, beinbrunasótt og öðrum vírusum. Við viljum gjarnan rannsaka áhrif þessarar meðferðar frekar og hvernig hún getur nýst í löndum sem á henni þurfa að halda.“

Moskítóherinn mun hefja innreið sína í Bello í Kólumbíu og stórum hluta af Rio de Janeiro snemma á næsta ári. Vísindamenn vonast eftir því að smituðu flugurnar nái að bera bakteríuna yfir til annarra flugna og þannig yfir til næstu moskítókynslóða. Geta þeirra til að bera smit muni því fara minnkandi eftir því sem líður á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert