Lýsti pyntingum á yfirvegaðan hátt

AFP

Breski verðbréfamiðlarinn Rurik Jutting var rólegur og yfirvegaður þegar hann lýsti fyrir lögreglu hvað væri að gerast á skelfilegum myndum sem hann tók á síma sinn þegar hann pyntaði unga konu fyrir tveimur árum. Jutting er ákærður fyrir morð á tveimur ungum konum í Hong Kong fyrir tveimur árum.

Myndskeið frá yfirheyrslum yfir Jutting var sýnt við réttarhöldin yfir honum í Hong Kong í dag. Jutting, sem var verðbréfamiðlari hjá Bank of America-Merrill Lynch, neitaði að hafa myrt konurnar en játaði að vera sekur um manndráp. Játningu hans var hafnað af saksóknara.

Allt frá því réttarhöldin hófust á mánudag hafa kviðdómendur séð skelfilegar myndir og myndskeið úr síma Juttings þar sem hann sést pynta fyrra fórnarlamb sitt, Sumarti Ningsih, 23 ára, í þrjá sólarhringa áður en hann skar hana á háls með skörðóttum hnífi á heimili sínu.

Nokkrum dögum síðar drap hann Seneng Mujiasih, 26 ára, en hann skar hana einnig á háls í íbúð sinni í Hong Kong. Lík kvennanna fundust í íbúð hans 1. nóvember 2014.

Þegar lögreglan skoðar myndir úr síma Juttings með honum við yfirheyrslur og biður hann um að útskýra hvað sé að gerast á myndunum lýsir hann því á rólegan og yfirvegaðan hátt.

Að sögn Juttings batt hann Ningsih með hennar samþykki og hún sýndi engan mótþróa en hann hélt henni gegn hennar vilja. „Þessi mynd var tekin á þeim þremur dögum sem hún var í haldi gegn eigin vilja í íbúð minni.“ 

Að sögn Juttings var hann nánast vitstola af kynlífsfíkn þegar hann hélt henni í íbúðinni. Á myndunum sést Ningsih bundin og kefluð og með áverka eftir að hafa verið slegin með belti víða um líkamann.

Frétt mbl.is: Ef þú öskrar þá refsa ég þér

Þegar honum voru sýndar myndir frá blóðugu baðherberginu á heimili hans lýsti hann því fyrir lögreglu hvernig hann hefði skorið Ningsih á háls þar inni, bundið hana með kaðli og sett líkið í plastpoka og sett lak utan um. Síðan hefði hann komið líkinu fyrir í ferðatösku.

Jutting sagði við lögreglu að eftir að hafa ráðist á seinna fórnarlambið, Mujiasih, hefði hann verið gjörsamlega útkeyrður. „Ég held að hún hafi enn verið á lífi og hreyft sig. Ég féll saman úti á svölum. Síðan fór ég inn aftur og þá var hún hætt að hreyfa sig. Ég kannaði það ekkert sérstaklega hvort hún væri dauð eða lifandi,“ segir Jutting í yfirheyrslu.

Hann segist hafa velt því fyrir sér að stökkva fram af svölunum og í eitt skiptið hafi hann klifrað yfir á svalir nágrannans vopnaður hníf, vodka, kókaíni og Red Bull. En hann hafi séð að sér, farið aftur heim til sín og hringt í lögregluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert