Hernámsmennirnir í Oregon sýknaðir

Sjömenningarnar sem voru sýknaðir í dag. Leiðtogi hópsins, Ammon Bundy …
Sjömenningarnar sem voru sýknaðir í dag. Leiðtogi hópsins, Ammon Bundy er efstur til vinstri. AFP

Sjömenningar sem tóku þátt í vopnuðu hernámi á opinberum byggingum á náttúruverndarsvæði í Oregon í janúar voru sýknaðir af ákærum sem tengdust umsátrinu í alríkisdómstóli í ríkinu í dag. Fólkið var meðal annars ákært fyrir vopnalagabrot og fyrir samsæri um að hindra opinbera starfsmenn í starfi.

Tugir vopnaðra manna sölsuðu undir sig hluta Malheur-náttúruverndarsvæðisins 2. janúar í kjölfar mótmæla gegn fangelsisdómi yfir tveimur búgarðseigendum sem voru sakfelldir fyrir að brenna alríkisland. Kröfðust þeir þess að alríkisstjórnin skilaði náttúruverndarsvæðinu til borgaranna til nýtingar og sögðust tilbúnir að mæta tilraunum yfirvalda til að reka þá af svæðinu með vopnavaldi.

Forsprakkar hernámsins voru svo handteknir 27. janúar en einn úr hópnum var skotinn til bana í átökum við lögreglu. Hernáminu lauk svo endanlega og friðsamlega 11. febrúar þegar síðustu hernámsmennirnir gáfust upp, 41 degi eftir að það hófst. 

Frétt Mbl.is: Forsprakkar hernámsins handteknir

Ammon Bundy, leiðtogi hópsins, bróðir hans Ryan og þrír aðrir voru í dag sýknaðir af ákæru um brot á skotvopnalögum og samsæri um að hindra opinbera starfsmenn í störfum sínum. Tveir aðrir voru sýknaðir af ákæru um samsæri. Dómstóllinn komst ekki að niðurstöðu um ákæru um þjófnað gegn Ryan Bundy.

Sjö aðrir hernámsmenn eru sagðir koma fyrir dómara í febrúar vegna umsátursins.

Dómsuppkvaðningin gekk ekki áfallalaust. Lögmaður Ammons Bundy var snúinn niður af lögreglumönnum þegar hann krafðist þess af ákafa að Ammon yrði sleppt. Eru lögreglumennirnir sagðir hafa notað rafbyssu á lögmanninn, að því er kemur fram í frétt CNN.

Frétt Mbl.is: Ná sér niðri á alríkisstjórninni

Bundy-bræðurnir og faðir þeirra Cliven eru enn í varðhaldi þar sem þeir eru enn ákærðir í Nevada í tengslum við annað umsátur á búgarði fjölskyldunnar árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert