Fangelsaður fyrir Pokémon-leit í kirkju

AFP

Rúmlega tvítugur Rússi var í gær úrskurðaður í þriggja mánaða langt gæsluvarðhald eftir að hafa brotið reglur um stofufangelsi til þess að elta Pokémon í kirkju. Hann á yfir höfði sér fimm ára fangelsi fyrir Pokémon-leitina.

Ruslan Sokolovsky, 22 ára, er ákærður fyrir að móðga trúariðkendur og hatursáróður. Sokolovsky, sem er trúleysingi, var handtekinn í ágúst fyrir að hafa birt á YouTube myndskeið, sem tæplega ein og hálf milljón manna hefur horft á, þar sem hann sést koma inn í kirkju og spila Pokémon Go í snjallsíma sínum. Hann er ákærður á grundvelli laga sem sett voru í kjölfar þess að liðsmenn Pussy Riot-pönksveitarinnar fóru inn í kirkju í Moskvu árið 2012 og voru með gjörning. Tvær þeirra voru dæmdar í tveggja ára fangelsi fyrir skrílslæti. 

Málið hefur varpað kastljósi á aukin áhrif rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar þrátt fyrir aðskilnað ríkis og kirkju í Rússlandi. Mannúðarsamtök eins og Amnesty International hafa gagnrýnt þetta harðlega. 

Rétttrúnaðarkirkjan hefur einnig sakað hann um guðlast vegna kirkjuferðarinnar en um er að ræða kirkju  á þeim stað sem bolsévikar skutu síðasta keisarann og fjölskyldu hans árið 1918.

Í gær úrskurðaði héraðsdómur að Sokolovsky ætti að sæta gæsluvarðhaldi þangað til réttarhöldin yfir honum hefjast í janúar fyrir að hafa brotið reglur sem gilda um stofufangelsi. Lögmaður hans segir að ástæðan fyrir því að skjólstæðingur hans sé sendur í fangelsi sé að unnusta hans hafi heimsótt hann á afmælisdegi hans. Það hafi verið brotið sem olli því að stofufangelsi dygði ekki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka