Jutting er sjálfsdýrkandi sadisti

Lögreglumenn standa vörð við dómshúsið þegar Rurik Jutting var fluttur …
Lögreglumenn standa vörð við dómshúsið þegar Rurik Jutting var fluttur þangað er réttarhöldin hófust. AFP

Breski bankastarfsmaðurinn Rurik Jutting, sem réttað er nú yfir í Hong Kong vegna tveggja morða, er sjálfsdýrkandi, kynferðislegur sadisti, sem segist sjálfur hafa verið beittur kynferðisofbeldi í breskum einkaskóla sem barn. 

Þetta kom fram í við réttarhöldin í dag en fyrsta vitni verjenda hans var geðlæknirinn Richard Latham. 

Frétt mbl.is: Lýsti pyndingum á yfirvegaðan hátt

Læknirinn segir að Jutting þjáist af alvarlegri persónuleikaröskun. Þá hafi geðheilsa hans einnig orðið fyrir áhrifum vegna misnotkunar hans á áfengi og kókaínneyslu.

Jutting er 31 árs. Hann er ákærður fyrir að hafa myrt tvær indónesískar konur en lík þeirra fundust í íbúð hans fyrir tveimur árum.

Myndskeið fundust í síma Jutting af honum að nauðga og pynta fyrsta fórnarlamb sitt. Ofbeldið stóð í þrjá sólarhringa, að því er segir um málið á vef Sky-sjónvarpsstöðvarinnar. Á myndskeiði má einnig sjá hann tala um að drepa seinna fórnarlamb sitt. Myndböndin voru sýnd við réttarhöldin í síðustu viku. Myndskeiðin tók Jutting sjálfur upp. Latham segir að á þeim megi sjá í hvaða ástandi Jutting var er hann framdi glæpi sína.

Læknirinn Latham sagði að Jutting hefði einnig sagt sér að hann hefði verið misnotaður sem bar í þekktum, breskum einkaskóla. Hann hefði verið þvingaður til munnmaka af öðrum dreng. 

„Hann lýsti þessu fyrir mér eins og hann væri fórnarlamb kynferðisofbeldis,“ sagði læknirinn í vitnisburði sínum.

Í yfirheyrslum hjá lögreglu viðurkenndi Jutting hafa neytt mikils magns kókaíns á hverjum degi. Hann segist hafa tekið inn 20 grömm af kókaíni rétt áður en hann myrti síðara fórnarlamb sitt.

Verjendur og saksóknarar í málinu eru sammála um þau efnislegu sönnunargögn sem hafa veið lögð fram í málinu. Þá greinir hins vegar á um geðheilsu Jutting og hvort hann sé sakhæfur og þar með ábyrgur fyrir gerðum sínum. 

Í Hong Kong er þeim sem dæmdir eru fyrir morð undantekningarlaust refsað með lífstíðarfangelsi. Sé hins vegar sakfellt fyrir manndráp er möguleiki á reynslulausn til staðar. 

Jutting hefur játað að hafa drepið konurnar tvær, hina 23 ára gömlu Sumarti Ningsih og hina 26 ára Seneng Mujiasih. Hann segist hins vegar ekki hafa verið ábyrgur gjörða sinna og hafnar því að hafa myrt þær með köldu blóði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert