Yfirvöld í Nepal hafa lokið við að lækka yfirborð jökullóns í nágrenni Mont Everest um 3,5 metra vegna hættunnar sem talinn var fylgja mögulegu ofanflóði úr lóninu.
Vísindamenn segja loftslagsbreytingar valda því að jöklar í Himalajafjöllum bráðna nú hættulega hratt og því fylgi hætta á að stór jökullón í fjöllunum rjúfi bakka sína og valdi miklu tjóni á nærliggjandi byggðum.
Imja Tsho, sem er í rúmlega 5.000 metra hæð og í aðeins 10 km fjarlægð frá Everest, er það jökullón í Nepal sem vex hvað hraðast. Öflugur jarðskjálfti upp á 7,8 olli verulegu tjóni í Nepal í apríl í fyrra og vöknuðu í kjölfarið áhyggjur af hættunni á ofanflóði úr jökullóninu.
„Það var forgangsatriði stjórnvalda að lækka vatnsyfirborðið vegna þeirrar miklu hættu sem því fylgir. Við höfum dregið úr þeirri hættu núna,“ hefur AFP-fréttastofan eftir verkefnastjóranum, Top Bahadur Khatri.
Jökullónið var tæplega 150 metra djúpt og hefur vatnsyfirborðið verið lækkað um 3,5 metra með því að hleypa úr því rúmlega fimm milljón rúmmetrum af vatni yfir sex mánaða tímabil.
Tæming lónsins var samstarfsverkefni nepalskra stjórnvalda og þróunarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.
Hópur 40 nepalskra hermanna, 100 verkamenn, sem voru vanir vinnu í mikilli lofthæð, unnu á vöktum frá því í apríl við að lækka vatnsyfirborðið. Vegna vindkælingar, snjóa og lofthæðar, gátu þeir ekki unnið nema 2-3 tíma á dag. „Þetta var krefjandi verkefni sagði herforinginn Bharat Lal Shrestha, sem fór fyrir hermönnunum og kvað háfjallaveiki m.a. hafa tafið vinnuna framan af.
Yfirborð vatnsins breikkaði úr 0,4 ferkílómetrum í yfir einn ferkílómetra á árabilinu 1984-2009, sem vakti áhyggjur marga af að Imja Tsho gæti rofið bakka sína og flætt yfir þorpin sem liggja þar fyrir neðan.
Sérfræðingar um ofanflóð á þessum slóðum telja að þetta gæti haft hörmulegar afleiðingar fyrir þær 50.000 sem búa í nærliggjandi bæjum, en sérstöku viðvörunarkerfi hefur nú verið komið fyrir í þorpunum fyrir neðan.
„Við lifum við óttann um að verða fyrir ofanflóðum frá jökullónum sem eru að verða hættuleg, en sem ekki hafa fengið neina athygli ennþá,“ hefur fréttavefur BBC eftir Nimji, leiðtoga sjerpa í þorpinu Thamo.
„Okkar áætlun er að fara næst í samskonar framkvæmdir á öðrum jökullónum sem hætta er talinn stafa af,“ sagði Khatri
Um 3.000 jökullón eru í Nepal og hafa jökullónin rofið bakka sína meira en 20 sinnum frá því snemma á sjöunda áratugnum. Þrjú þessara tilfella hafa verið í nágrenni Everest.
Rannsókn sem birt var 2014 bendir til þess að vegna loftslagsbreytinga kunni jöklar í nágrenni Everest að hopa um 70% eða jafnvel hverfa alfarið fyrir aldalok. Þá sýna myndir frá gervihnattatunglum að nepalskir jöklar hafa þegar minnkað um tæpan fjórðung á árabilinu 1977-2010.