Segir réttarhöldin pólitísk

Lögmenn Wilders í dómshúsinu í Schiphol í dag.
Lögmenn Wilders í dómshúsinu í Schiphol í dag. AFP

Hollenski öfgahægrimaðurinn Geert Wilders var ekki í dómsal þegar réttarhöld yfir honum vegna hatursorðræðu hófust í dag. Lögmaður Wilders las þess í stað upp yfirlýsingu frá þingmanninum þar sem hann sagðist hafa ákveðið að vera ekki viðstaddur því réttarhöldin væru pólitísk.

Wilders er ákærður fyrir að að hafa móðgað kynþáttahóp og að hvetja til kynþáttahaturs með ummælum sem hann lét falla um Marokkóbúa í Hollandi á kosningafundi í mars fyrir tveimur árum. Þar spurði Wilders viðstadda hvort þeir vildu fleiri eða færri Marokkóa í Hollandi. Þegar viðstaddur hrópuðu á móti „Færri! Færri!“ svaraði Wilders brosandi „Við ætlum að skipuleggja það“.

„Þetta eru pólitísk réttarhöld og ég hef ákveðið að vera ekki viðstaddur. Það er réttur minn sem stjórnmálamanns að gagnrýna það ef það eru vandamál í Hollandi,“ sagði í yfirlýsingunni sem verjandinn las upp frá Wilders, sem hefur verið þekktur fyrir andúð sína á innflytjendum og múslimum sérstaklega. Hann lýsti enn fremur þeirri skoðun sinni að taka ætti málið fyrir á þingi en ekki fyrir dómstólum.

Saksóknarinn í málinu sagðist ekki ætla að krefjast þess að Wilders yrði viðstaddur réttarhöldin.

Wilders var sýknaður af svipuðum ákærum árið 2011. Ummæli hans sem nú eru fyrir dómstólum vöktu mikla reiði hjá samfélagi múslima í Hollandi. Þau mættu einnig fordæmingu í hollenska þinginu og útilokuðu aðrir flokkar samstarf við Frelsisflokk hans þrátt fyrir vaxandi vinsældir hans hjá íhaldsfólki í landinu.

Frelsisflokkurinn og Frjálslyndi flokkur forsætisráðherrans Marks Rutte mælast nú hnífjafnir í skoðanakönnunum fyrir þingkosningar sem verða haldnar í landinu í mars á næsta ári.

Geert Wilders, leiðtogi Frelsisflokksins, er þekktur fyrir andúð sína á …
Geert Wilders, leiðtogi Frelsisflokksins, er þekktur fyrir andúð sína á innflytjendum og múslimum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert