Trump nær forskoti á Clinton

Aðeins vika er þar til Bandaríkjamenn velja sér sinn næsta …
Aðeins vika er þar til Bandaríkjamenn velja sér sinn næsta forseta. AFP

Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, hefur náð forskoti á keppinaut sinn Hillary Clinton í nýrri könnun sem gerð var á vegum ABC News og Washington Post, en niðurstöður hennar voru gerðar opinberar í dag. Aðeins vika er til kosninga vestanhafs, sem fara fram 8. nóvember næstkomandi.

Forskotið er lítið, aðeins eitt prósentustig, en könnunin sýnir einnig sjö prósentustiga lækkun á hlutfalli ákafra stuðningsmanna Clinton sem líklegir eru til að kjósa á kjördag. Gæti lækkunin verið afleiðing þeirra hneykslismála sem umkringt hafa framboð hennar að undanförnu.

Ekki haft forskot síðan í maí

Trump fær stuðning 46% aðspurðra í könnuninni, en Clinton 45%, sem er vel innan skekkjumarka. Þetta er þó í fyrsta sinn sem hann mælist ofar en hún, í könnun á vegum ABC og Post, síðan í maí síðastliðnum.

Könnunin var framkvæmd dagana 27.-30. október, en James Comey, yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar FBI, tilkynnti þann 28. október að fulltrúar á hans vegum hefðu fundið nýjan skammt tölvupósta sem gætu fallið undir rannsókn embættisins á meðhöndlun Clinton á trúnaðargögnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert