„Stúlkan“ með grænu augun send heim

Yfirvöld í Pakistan birtu þessa mynd af Sharbat Gulan eftir …
Yfirvöld í Pakistan birtu þessa mynd af Sharbat Gulan eftir að hún var handtekin. AFP

Yfirvöld í Pakistan hyggjast senda úr landi afganska konu sem varð heimsfræg þegar mynd af henni birtist á forsíðu National Geographic á 9. áratug síðustu aldar. Verður hún send aftur til Afganistan, þaðan sem hún flúði fyrir áratugum.

Græn augu Sharbat Gula vöktu athygli um allan heim, en það var ljósmyndarinn Steve McCurry sem myndaði Gula í flóttamannabúðum í Pakistan.

Gula var handtekin í síðustu viku og ákærð fyrir að dvelja í Pakistan á fölskum forsendum.

Hin ólæsa fjögurra barna móðir játaði í dag og var dæmd til að dvelja í fangelsi í 15 daga og greiða andvirði 116 þúsund króna í sekt. Að sögn lögmanns hennar hefur hún þegar dvalið 11 daga í fangelsi og kann því að losna strax á mánudag.

Fulltrúi afganska konsúlsins í Pakistan sagði að sekt Gula hefði þegar verið greidd og að hún yrði flutt heim ásamt börnum sínum. Gula hefur verið greind með lifrarbólgu C en eiginmaður hennar lést fyrir nokkrum árum.

Gula var 12 ára gömul þegar McCurry tók af henni myndina. Forsíða tölublaðsins sem hún skreytti varð sú frægasta í sögu National Geographic.

Eftir 17 ára leit fann McCurry Gula aftur í afgönsku þorpi árið 2002, en hún var þá kvænt bakara og hafði eignast þrjár stúlkur. Að sögn yfirvalda í Pakistan sótti hún um skilríki á fölskum forsendum í Peshawar árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert