Ein af nígersku skólastelpunum fundin

Maryam Ali Maiyanga með tíu mánaða gamlan son sinn.
Maryam Ali Maiyanga með tíu mánaða gamlan son sinn. AFP

Skólastelpa úr hópi þeirra 270 sem var rænt af hryðjuverkasamtökunum Boko Haram í Chibok bænum í Nigeríu fannst í norðurhluta héraðsins með tíu mánaða gamalt barn, að því er kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins

Yfirvöld tilkynntu nýlega um fundinn, tæpum mánuði frá því að 21 skólastelpa var látin laus eftir samningaviðræður við Boko Haram. Stelpan fannst í skimun á flóttafólk sem slapp úr bækistöð Boko Haram í Sambisa skóginum. 

Ránið á 270 skólastelpum í Chibok bænum í apríl 2014 vakti alþjóðlega athygli. Hafa yfirvöld heitið því að endurheimta þær 200 skólastelpur sem enn eru í haldi Boko Haram. 

Boko Haram samtökin hafa rænt þúsundum manna síðan þau hófu uppreisn gegn yfirvöldum fyrir sjö árum síðan. Þau berjast fyrir að stofna íslamskt ríki í norðurhluta Nígeríu og er talið að meira en 30.000 manns hafi látist í átökum hingað til. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert