Búist er við að Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, stokki upp ríkisstjórn sína í dag í von um að styrkja stöðu hennar eftir óvinsælar niðurskurðaraðgerðir.
Talið er að Tsipras muni losa sig við nokkra harðlínumenn í stjórninni sem hafa verið á móti einkavæðingaraðgerðum hans og fá í staðinn inn yngri flokksmeðlimi sem hafa verið hliðhollir honum. Búist er við að hann stofni einnig sérstakt ráðuneyti sem muni takast á við flóttamannavandann í landinu.
Vinsældir Tsipras hafa dvínað þegar einu ári er lokið af fjögurra ára kjörtímabili ríkisstjórnarinnar, aðallega vegna aukinna skattahækkana og niðurskurðar í lífeyrismálum.
Ákvörðun ríkisstjórnar hans um að stokka upp einkarekna sjónvarpsgeirann í landinu hefur einnig verið umdeild og var henni hafnað af dómstóli í síðustu viku.
Tsipras vonast til að efnahagurinn í Grikklandi muni batna á þessu ári og bindur vonir við að afskrifaðar verði skuldir gagnvart alþjóðlegum kröfuhöfum.