Flóð og fellibyljir ofsafengnari en áður

Aðgerðasinni á mótmælum gegn hlýnun jarðar í Ohio í Bandaríkjunum. …
Aðgerðasinni á mótmælum gegn hlýnun jarðar í Ohio í Bandaríkjunum. Loftsagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna er haldin í Marrakesh þessa dagana, en henni er ætlað er að ræða innleiðingu Parísarsáttmálans. AFP

Hitabylgjur og fellibyljir, ásamt þurrkum og flóðum hafa orðið algengari og ofsafengnari af völdum loftslagsbreytinga á undanförnum árum en áður, að því er fram kemur í skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar sendu frá sér í dag. 

Rúmur helmingur allra meiriháttar öfga sem urðu í veðurfari á árabilinu 2011-2015 bera merki hnattrænnar hlýnunar samkvæmt upplýsingum sem Alþjóðaveður­fræðistofn­unin (WMO) birti á loftsagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem haldin er í Marrakesh þessa dagana og sem ætlað er að ræða innleiðingu Parísarsáttmálans.

Þar kemur fram að síðasti hálfi áratugurinn sé hlýjasta fimm ára tímabil sem skráð hefur verið og að árin 2014-2015 séu þau hlýjustu.

Auk þessara fordæmalausu breytinga á hitastigi, voru einnig merki um hækkun yfirborðs sjávar sem eykur enn frekar á eyðileggjandi áhrif hitabeltisstorma sem öðlast aukinn kraft í hlýju og röku loftslagi að því er segir í skýrslunni.

Veðurfarstengdar hamfarir kostuðu 300.000 manns lífið

Loftslagsbreytingar „hafa aukið hættuna á öfgum í veðurfari, m.a. hitabylgjum, þurrki, úrhellisrigningu og flóðum,“ sagði í yfirlýsingu frá Petteri Taalas, aðalritara WMO.

Samkvæmt útreikningum WMO fórust um 300.000 manns í veðurfarstengdum hamförum á árabilinu 2011-2015. Flest þeirra dauðsfalla, sem tengja má áhrifum loftslagsbreytinga, urðu í miklum þurrkum í Austur-Afríku á árabilinu 2010-2012. 

Fellibylurinn Haiyan olli þó einnig miklu manntjóni á Filippseyjum 2013 og eins dó fjöldi fólks í hitabylgjum á Indlandi og í Pakistan í fyrra.

Efnahagstjón af völdum loftslagsbreytinga fer einnig vaxandi, m.a. vegna flóða í Suðaustur-Asíu árið 2011 og af völdum fellibyljarins Sandy árið 2012. Samanlagt tjón þessara tveggja atburða er metið á meira en 100 milljarða dollara.

Aukinna veðraöfga von í Suður-Evrópu

Frá því á níunda áratugnum hefur aukning í hlýnun jarðar verið merkjanleg. Hún eykst nú enn hraðar vegna síaukins útblásturs gróðurhúsaloftegunda af mannavöldum, aðallega með bruna á kolum, olíu og gasi að því er segir í frétt AFP-fréttastofunnar. 

Fulltrúar á loftslagsráðstefnu Sameinuð þjóðanna í Marrakesh halda hér á …
Fulltrúar á loftslagsráðstefnu Sameinuð þjóðanna í Marrakesh halda hér á lofti sólarraf­hlöðuknúnu ljósi Ólafs Elíassonar og Frederik Ottesen. AFP

Þeir vísindamenn sem sérhæfa sig í loftslagsmálum hafa lengi átt í erfiðleikum með að skilja einstaka atburði og áhrif loftslagsbreytinga þar á frá náttúrulegum veðurfarsbreytingum. Sístækkandi gagnasöfn gera þá vinnu þó sífellt nákvæmari. 

Þannig telja vísindamenn nú Miðjarðarhafssvæðið kunna að vera eitt þeirra svæða sem verði illa fyrir barðinu á loftslagsöfgum í framtíðinni. Nýleg rannsókn bendir til þess að árlegra veðuröfga kunni að verða von á vissum svæðum Suður-Evrópu frá miðri þessari öld. Fram til þessa hafa slík veðrabrigði orðið á um hundrað ára fresti. 

Fjöldi meta í loftslagsmálum slegin

Yfirborð sjávar hækkar líka mun hraðar nú en áður. Þannig hefur yfirborð sjávar hækkað nær tvöfalt hraðar á síðustu 25 árum, en það gerði á tímabilinu 1900-2010 og má rekja þessa breytingu að stórum hluta til bráðnunar jökla á Grænlandi og suðurskautinu.

Þá voru fjölmörg vafasöm met í loftslagsmálum slegin í fyrra að því að fram kemur í skýrslu WMO.

Var 2015 m.a. fyrsta árið sem meðalhiti á landi og sjó var heilli gráðu heitara en fyrir tíma iðnbyltingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka