Nafngreina skipuleggjanda árásanna

Oussama Atar.
Oussama Atar. Skjáskot af LaCapitale.be

Ríkissaksóknaraembætti Frakklands hefur nafngreint mann sem talinn er hafa komið að skipulagningu hryðjuverkaárásanna í París og Brussel.

Um er að ræða Oussama Atar, 32 ára mann með tvöfalt ríkisfang, belgískt og marokkóskt. Atar er í Sýrlandi og félagi í vígasamtökunum Ríki íslams.

Heimildir AFP-fréttastofunnar herma að Atar sé einn grunaðra um að hafa skipulagt árásirnar í Brussel 22. mars en nú sé talið að hann hafi einnig tengst árásunum í París 13. nóvember í fyrra.

Atar er sá eini af þeim sem komu að árásunum og hafa verið nafngreindir, sem er búsettur er í Sýrlandi. Grunur hefur verið um að árásirnar hafi verið skipulagðar af nokkrum einstaklingum í Sýrlandi en Atar er sá fyrsti sem er nafngreindur. Dulnefni hans er Abou Ahmad en hann er frændi El Bakraoui-bræðranna sem sprengdu sig upp á flugvellinum í Brussel og í neðanjarðarlest í sömu borg.

Tveir frændur til viðbótar, Moustapha og Jawad Benhattal, voru handteknir 18. júní grunaðir um að undirbúa árás í Belgíu þar sem sýna átti leik frá EM. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka