Var skotin og stungin ítrekað

AFP

Jo Cox, þingmaður Verkamannaflokksins, var ítrekað skotin og stungin í „hrottafenginni“ árás. Morðið var pólitískt, kom fram við réttarhöld yfir morðingja Cox í dag, en hann muldraði „Bretland fyrst“ og „höldum Bretlandi sjálfstæðu“ þegar hann lét til skarar skríða.

Thomas Mair réðist á Cox í Yorkshire í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um framtíð Bretlands innan Evrópusambandsins. Cox var fylgjandi áframhaldandi aðild.

Síðustu stundir þingmannsins voru fangaðar af öryggismyndavélum og þá sá vitni Mair læðast aftan að Cox, stinga hana og skjóta. Hann stakk hana aftur og mann sem reyndi að koma henni til aðstoðar, og að því loknu skaut hann þingmanninn enn einu sinni.

Cox var skotin tvisvar í höfuðið og einu sinni í bringuna. Þá fundust 15 stungusár á henni. Hún lést á staðnum. Cox var 41 árs tveggja barna móðir.

Muir er 53 ára atvinnulaus garðyrkjumaður. Hann er sagður hafa heimsótt fjölda vefsíðna dagana fyrir morðið þar sem umfjöllunarefnið var m.a. nasistar, Ku Klux Klan, SS-sveitirnar, Ísrael, móðurmorð og fjöldamorðingjar.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert