Endurvekja rannsókn á morði

Olof Palme, var skotinn í bakið af stuttu færi þann …
Olof Palme, var skotinn í bakið af stuttu færi þann 28. febrúar 1986 á Sveavägen í Stokkhólmi. AP

Svíar ætla að hefja á nýjan leik rannsókn á morðinu á Olof Palme forsætisráðherra. 30 ár eru liðin frá því hann var skotinn til bana. Krister Petersson, saksóknari í Stokkhólmi, mun leiða rannsóknina, samkvæmt frétt BBC.

Fjallað var ítarlega um morðið og rannsóknina í Sunnudagsmogganum fyrir fimm árum:

„Það var föstudagskvöld og Olof Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar, var að koma úr í Grand-kvikmyndahúsinu í Stokkhólmi ásamt eiginkonu sinni, Lisbet, syni og tengdadóttur, þar sem þau höfðu séð nýjustu kvikmynd sænska leikstjórans Suzanne Osten, Mozart-bræðurna. Eftir sýninguna kvöddust pörin með virktum og Palme-hjónin röltu í rólegheitunum niður Sveavägen í átt að neðanjarðarlestarstöðinni á Rådmansgötu, fyrir þá sem þekkja til staðhátta í Stokkhólmi. Engir lífverðir voru með í för enda var Palme frægur fyrir óvarkárni í þeim efnum – þrátt fyrir stöðu sína vildi hann lifa eins eðlilegu lífi og unnt var. Fyrir það var hann oft gagnrýndur.

Þegar hjónin áttu aðeins örfá skref ógengin að lestarstöðinni vatt maður sér að þeim og skaut þau bæði af stuttu færi. Palme lá eftir í blóði sínu en Lisbet særðist aðeins lítillega. Ódæðismaðurinn hljóp að svo búnu niður Tunnelgötu og hvarf fljótt sjónum. Leigubílstjóri sem varð vitni að atburðinum hafði umsvifalaust samband við lögreglu og tvær ungar stúlkur sem voru á næstu grösum reyndu að koma hjónunum til hjálpar. Þau voru flutt á sjúkrahús, þar sem Palme var úrskurðaður látinn.

Sænska þjóðin var harmi slegin yfir morðinu. Svona lagað átti ekki að geta gerst í Svíþjóð.

Lögregla gagnrýnd

Viðamikil rannsókn var sett af stað en vísbendingar voru af skornum skammti. Strax fyrstu dagana eftir morðið kom fram hörð gagnrýni á lögregluna, meðal annars fyrir að loka ekki landamærum strax. Einsýnt þótti að morðinginn hefði hæglega getað komist úr landi.

Fljótlega var kunnur öfgamaður, Victor Gunnarsson, tekinn höndum en engar sannanir lágu fyrir gegn honum. Gunnarsson var því sleppt. Hann flutti síðar til Bandaríkjanna, þar sem hann var myrtur.

Hans Holmér, lögreglustjóri í Stokkhólmi, lagði áherslu á að fylgja eftir ábendingu um að samtök Kúrda í Svíþjóð, PKK, hefðu verið á bak við morðið á Palme. Ekki var hægt að færa sönnur á það og Holmér hrökklaðist á endanum frá rannsókn málsins.

Í desember 1988, tæpum þremur árum eftir dauða Palmes, var Christer Pettersson, drykkjumaður og góðkunningi lögreglunnar, handtekinn grunaður um glæpinn, eftir að frú Palme hafði bent á hann í sakbendingu. Hann var dæmdur fyrir morðið í undirrétti en eftir áfrýjun sýknaði hæstiréttur hann. Rök dómsins voru einkum þríþætt. Í fyrsta lagi var morðvopnið ófundið; í annan stað hafði hann enga augljósa ástæðu til að fremja glæpinn og í þriðja lagi þótti réttinum vitnisburður frú Palme ekki nógu áreiðanlegur.

 Alþjóðlegt samsæri?

Petterson lá áfram undir grun en ekki var hægt að höfða annað mál á hendur honum nema nýjar upplýsingar kæmu fram. Frekari upplýsingar koma heldur ekki frá honum úr þessu því Petterson lést haustið 2004 af völdum heilablæðingar eftir slys. Fjöldi vitna hefur borið að Petterson hafi gengist við morðinu.

 Palme lét mikið til sín taka á alþjóðavettvangi. Hann hafði m.a. skömm á aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku og barðist fyrir afnámi hennar. Tíu árum eftir morðið bar Eugene de Kock, fyrrverandi lögreglumaður, fyrir rétti í Pretoríu að Palme hefði verið myrtur af þessum sökum. Hann nafngreindi meira að segja manninn sem hann taldi hafa framið verknaðinn. Sænska lögreglan sendi í kjölfarið menn til Suður-Afríku en þeir fundu ekkert sem renndi stoðum undir orð de Kocks.

Mörgum fleiri kenningum hefur verið kastað fram gegnum árin, svo sem að Baader-Meinhof-hópurinn í Þýskalandi og fasisti frá Síle hafi banað Palme, en ekkert sannast í þeim efnum.

 Um 130 hafa játað

Um það bil 130 manns hafa játað fyrir lögreglu í Svíþjóð, að hafa myrt Palme. Síðasta játningin kom fyrir nokkrum árum en að sögn Stig Edqvist, sem stýrir sérstökum þriggja manna rannsóknarhópi sænsku lögreglunnar, reyndist hún uppspuni eins og aðrar á undan,“ segir í greininni í Sunnudagsmogganum.

Peterson rannsakaði meðal annars morðið á utanríkisráðherra Svíþjóðar, Anna Lindh, árið 2003. Hann hefur störf í febrúar. Að hans sögn er það ætlun hans að reyna að leysa morðgátuna og hann sé hóflega bjartsýnn. 

Petersson hefur komið að ýmsum þekktum málum svo sem saksókn á John Ausonius sem skaut 11 innflytjendur til bana á tíunda áratugnum.

Olof Palme var skotinn til bana fyrir 30 árum. Morðið …
Olof Palme var skotinn til bana fyrir 30 árum. Morðið er enn óupplýst. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert