Fá ekki að snúa heim

Jaques Louis Arniel sýnir persónuskilríki sín þar sem segir að …
Jaques Louis Arniel sýnir persónuskilríki sín þar sem segir að hann sé fæddur á Chagos-eyjum. Íbúar eyjanna fóru illa út úr kaldastríðsbrölti heimsveldanna. AFP

Þúsundir fyrrverandi íbúa Chagos-eyjaklasans í Indlandshafi, sem voru brottfluttir af breskum stjórnvöldum árið 1971 til að rýma fyrir bandarískri herstöð, munu ekki fá að snúa heim aftur.

Frá þessu munu bresk stjórnvöld greina í dag, að því er fram kemur hjá Guardian.

Ákvörðunin er sögð munu valda miklum vonbrigðum en hennar hefur verið beðið í fjölda ára, m.a. af hundruð eyjaskeggja sem búsettir eru í Bretlandi og Máritíus. Kostnaður og mótmæli af hálfu bandarískra hernaðaryfirvalda eru sögð meðal ástæða þess að fólkið fær ekki að fara heim.

Gert er ráð fyrir að bresk stjórnvöld muni tilkynna um frekari skaðabætur til handa fólkinu og að tilkynningunni um ákvörðunina muni fylgja formleg afsökunarbeiðni fyrir brottflutning 1.500 manns frá eyjunum.

Helmingur þeirra sem fluttir voru á brott eru látnir.

Stjórnvöld eru enn fremur munu halda því fram að það yrði ómögulegt fyrir eyjaskeggja að draga fram lífið, þar sem þeir munu ekki getað búið á miðju eyjanna. Einnig munu þau halda því fram að of fáir myndu vilja snúa aftur.

Reiknað hefur verið út að það myndi kosta allt að 100 milljónir punda að hefja búsetu á eyjunum að nýju.

Leiga Bandaríkjamanna á eyjunni Diego Garcia rennur út í lok árs. Herstöðin getur hýst allt að 5.000 manns, þar af 2.000 hermenn.

Brottflutningur fólksins þykir skammarlegur kafli í sögu Breta. Málið þykir það markvert að það hefur verið rætt á hæstu stigum stjórnsýslunnar í Bretlandi og vestanhafs, og beint við Barack Obama Bandaríkjaforseta og Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, sem hefur barist fyrir rétti eyjaskeggja til að snúa aftur.

Á heildina litið er talið að fyrrverandi íbúar Chagos-eyja og afkomendur þeirra telji um 10.000.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert