Sáttasemjarinn og óhemjan

Reince Priebus (t.v.) og Stephen K. Bannon. Þeir munu aðstoða …
Reince Priebus (t.v.) og Stephen K. Bannon. Þeir munu aðstoða Donald Trump við að taka erfiðar ákvarðanir er hann tekur við embætti Bandaríkjaforseta. AFP

Donald Trump lýsir þeim sem „gríðarlega hæfum leiðtogum“ sem vinni vel saman og hafi átt stóran þátt í sögulegum kosningasigri sínum. Trump er talinn hafa valið Reince Priebus sem skrifstofustjóra Hvíta hússins til þess að byggja brýr innan Repúblikanaflokksins en val hans á Stephen Bannon sem aðalráðgjafa hefur verið gagnrýnt af mörgum. Hann hefur m.a. verið sakaður um kvenfyrirlitningu og kynþáttafordóma. 

Bannon er 62 ára, fyrrverandi yfirmaður í hernum og starfsmaður á fjárfestingasviði Goldman Sachs bankans. Hann tók við sem kosningastjóri Trumps undir lok kosningabaráttunnar er upplýst var og gagnrýnt harðlega að Paul Manafort, sem gegnt hafði stöðunni, tengdist ViktorJanúkóvíts, fyrrverandi forseta Úkraínu.

Stephen Bannon var kosningastjóri Donalds Trump síðustu vikur kosningabaráttunnar.
Stephen Bannon var kosningastjóri Donalds Trump síðustu vikur kosningabaráttunnar. AFP

„Óhemjan“ Bannon

Bróðurpart síðasta áratugar stóð Bannon í brúnni á hægrisinnuðu frétta- og skoðanasíðunni Breitbart. Fréttasíðan er vinsæl meðal íhaldsmanna en hefur verið gagnrýnd fyrir að ala á kynþáttafordómum, kvenfyrirlitningu og gyðingahatri undir stjórn Bannons líkt og rakið er ítarlega í grein breska dagblaðsins Guardian. Á henni var Barack Obama Bandaríkjaforseti m.a. sakaður um að „flytja inn fleiri hatursfulla múslima“ og starfsemi samtakanna Planned Parenthood líkt við helförina. Þá kom m.a. fram á síðunni að ungir múslimar í hinum vestræna heimi væru „tifandi tímasprengjur“ og var konum sem orðið höfðu fyrir áreitni á netinu ráðlagt að „skrá sig bara út“ og sagt að hætta að „skemma netið fyrir karlmönnum.“

Bannon er sagður lengst úti á jaðri hægri vængsins innan Repúblikanaflokksins. Í kjölfar skipunar hans í stöðu aðalráðgjafa Trumps hefur hann m.a. verið sagður „fjandsamlegur gildum bandarísks samfélags.“

Bannon er sagður snjall viðskiptamaður en hann hefur m.a. efnast vel á endursýningum á sjónvarpsþáttunum Seinfeld. Það kom þannig til að hann aðstoðaði við söluna á Castle Rock Entertainment, framleiðslufyrirtæki þáttanna, og fékk m.a. að launum hlutdeild í hagnaði af endursýningu þeirra.

Einkalíf Bannons varð fréttamatur á tíunda áratugnum er fyrrverandi eiginkona hans sakaði hann um heimilisofbeldi. Kæran var síðar látin niður falla. Í forræðisdeilu þeirra nokkrum árum síðar sagði eiginkonan fyrrverandi Bannon vera illa við gyðinga. „Honum líkar ekki hvernig þeir ala upp börnin sín svo þau verði vælandi krakkaormar,“ sagði hún meðal annars. 

Bannon hefur verið mjög gagnrýninn á stefnu Repúblikana og hefur viljað að flokkurinn færði sig enn lengra til hægri í stefnumálum sínum. Hann hefur hrósað þremur frammákonum í flokknum, m.a. Söruh Palin, fyrir að vera „kvenlegar“, vera giftar og styðja fjölskyldugildin en ekki vera „hópur af lessum“ [e. bunch of dykes].

Margir telja að Trump hafi svo valið Reince Priebus sem skrifstofustjóra Hvíta hússins til að byggja brýr milli andstæðra afla innan Repúblikanaflokksins. Ekki síst er talið að hann geti slegið á óvild Pauls Ryans, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, í garð Trumps, en Bannon hefur lengi verið einn helsti gagnrýnandi Ryans.

Donald Trump og Reince Priebus eftir að úrslit forsetakosninganna í …
Donald Trump og Reince Priebus eftir að úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum urðu ljós. AFP

Sáttasemjarinn Priebus

Priebus er 44 ára og formaður lands­nefnd­ar Re­públi­kana­flokks­ins. Hann er lögfræðingur að mennt og hefur langa reynslu af störfum hjá hinu opinbera. Hann var ungur álitinn áhrifamaður innan flokksins og hefur þrýst á breytingar í stefnu hans og nútímavæðingar. Eftir forsetakosningarnar árið 2012 fór hann fyrir nefnd sem skrifaði svokallaða „krufningaskýrslu“ um hvers vegna repúblikanar töpuðu. Í henni lagði hann m.a. til að gripið yrði til aðgerða til að ná fylgi meðal spænskumælandi íbúa og kvenna.

Priebus hefur ítrekað talað fyrir einingu meðal repúblikana, m.a. eftir að Trump var valinn forsetaefni flokksins. Hann varð virkur þátttakandi í kosningabaráttunni og undirbjó Trump m.a. fyrir kappræðurnar við Hillary Clinton. Í sigurræðu sinni sagði Trump um Priebus: „Hann er ótrúleg stjarna.“

Mikið mun mæða á Priebus sem skrifstofustjóra Hvíta hússins [e. White House Chief of Staff]. Hann mun m.a. hafa það hlutverk að tryggja að stefnumál Trumps fari hindrunarlaust í gegnum þingið. Hann mun verða hægri hönd Trumps og leiða hann í gegnum frumskóg stjórnsýslunnar en viðskiptamaðurinn Trump hefur enga reynslu á því sviði.

Reynslan hefur sýnt að skrifstofustjórar Hvíta hússins gegna lykilhlutverki í ákvörðunum forsetans. Leiða má líkum að því að Priebus og Bannon verði síðustu tveir mennirnir sem Trump mun hitta og ráðfæra sig við áður en hann tekur meiriháttar ákvarðanir sem forseti Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert