Segja skilið við alþjóðaglæpadómstólinn

Ákvörðun Rússa var tekin í kjölfar þess að ICC gaf …
Ákvörðun Rússa var tekin í kjölfar þess að ICC gaf út skýrslu þar sem innlimun Krímskaga var sögð jafngilda hernámi. AFP

Rússnesk stjórnvöld hyggjast draga til baka undirritun sína á stofnsáttmála alþjóðaglæpadómstólsins (ICC). Dómstóllin gaf í gær út skýrslu þar sem innlimun Rússa á Krímskaga er sögð jafngilda hernámi.

Ákvörðun Rússa er stórum hluta táknræn en þykir grafa undan tilraunum til að viðhalda alþjóðlegu úrræði til að sækja þá til saka sem fremja þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu.

Á síðustu mánuðum hafa þrjú Afríkuríki gefið til kynna að þau hyggist segja sig frá sáttmálanum; Suður-Afríka, Búrúndí og Gambía. Þarlend stjórnvöld segja dómstólinn hafa lagt óhóflega áherslu á Afríku í störfum sínum.

Það var utanríkisráðuneyti Rússlands sem tilkynnti um fyrirætlan þarlendra stjórnvalda. Sagði í tilkynningunni, sem var gefin út að fyrirskipan Vladimir Pútín forseta, að dómstóllinn hefði brugðist vonum alþjóðasamfélagsins. Þá voru störf hans sögð „einhliða og óskilvirk.“

„Þetta er táknræn höfnun og segir mikið um viðhorf Rússlands til alþjóðlegs réttlætis og stofnana,“ sagði Tanya Lokshina hjá Human Rights Watch í samtali við Guardian. Hún sagði ákvörðunina til marks um að Rússar hygðust ekki fara að sáttamálanum í framtíðinni né vinna með dómstólnum.

Í skýrslu dómstólsins sem kom út í gær segir m.a. að rússnesk stjórnvöld hefðu sent hersveitir til að yfirtaka landsvæði Úkraínu án samþykkis úkraínskra stjórnvalda.

Ráðamenn í Moskvu hafa hins vegar haldið því fram að Krímskagi  hafi verið innlimaður að undangenginni íbúakosningu, sem alþjóðlegir eftirlitsaðilar gagnrýndu fyrir að hafa verið skipulagða í flýti, mæta ekki alþjóðlegum viðmiðum, og hafa verið framkvæmda í skugga rússneskra hersveita á svæðinu.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert