Þrátt fyrir að sólin sé nær hætt að láta sjá sig á norðurheimskautinu er hitastigið þar nú um tuttugu gráðum hærra en vanalega. Óvenjulega hlýtt loft hefur streymt um norðurskautið frá því í síðasta mánuði og er útbreiðsla hafíssins þar nú enn minni en metárið 2012.
Samkvæmt athugunum dönsku veðurstofunnar er miðgildi hitastigs ofan við 80 breiddargráðu nú tuttugu gráðum hærra en vanalega. Í umfjöllun Washington Post kemur fram að þetta er annað árið í röð sem hitastigið á norðurskautinu hefur náð óvenjulegum hæðum. Þannig var hitastigið nærri norðurpólnum rétt um frostmark undir lok árs í fyrra vegna mikils storms sem dældi hlýju lofti norður á bóginn.
Today's latest #Arctic mean temperature continues to move the wrong direction... up. Quite an anomalous spike! pic.twitter.com/C93cQWUKV9
— Zack Labe (@ZLabe) November 15, 2016
„Hlýindin á norðurskautinu er afleiðing samblöndu mets í lágmarksútbreiðslu hafíss fyrir þennan árstíma, líklega mjög þunns íss, og mikið af hlýju/röku lofti frá lægri breiddargráðum sem mjög hlykkjóttur loftstraumur ýtir norður,“ segir Jennifer Francis, norðurskautssérfræðingur við Rutgers-háskóla í tölvupósti til blaðsins.
Hún bendir á að á sama tíma sé óvenjulegur kuldi af svipaðri stærðargráðu yfir norður- og miðhluta Asíu. Rannsóknir hennar benda til þess að loftstraumurinn sem blæs frá vestri til austurs yfir miðlægar breiddargráður norðurhvels jarðar sé að verða hlykkjóttari og lengri nú þegar norðurskautið hlýnar hraðar en miðbaugssvæði vegna hnattrænnar hlýnunar.
Mark Serreze, forstöðumaður Snjó- og ísgagnamiðstöðvarinnar í Boulder í Colorado, tekur undir að eitthvað afar undarlegt sé á ferðinni. Þarna fari saman fordæmalaus hlýindi í hafinu vegna þess að hafís er ekki að myndast ofan á því og bugður í loftstrauminum leyfi hlýju lofti að streyma norður og hrollköldu norðurskautslofti suður yfir Síberíu.
Hitastigið á sumum svæðum í Norðuríshafinu sé tæpum 14°C hærra en vanalega.
„Það er frekar klikkað,“ segir Serreze.
Hann telur að aðstæðurnar nú geti orðið til þess að hámarksútbreiðsla hafíssins nái nýjum lægðum í lok vetrar þó of snemmt sé að segja til um það nú. Veðurfar sé hverfult á norðurskautinu, hitastigið gæti snögglækkað og ísinn náð sér á strik.