Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) segir að hún líti ekki lengur á zika-veirufaraldurinn sem alþjóðlegt neyðarástand en það hefur staðið yfir í níu mánuði. Með því er stofnunin sögð viðurkenna að veiran sé komin til að vera. Veiran hefur verið tengd við fæðingargalla í börnum í tæplega þrjátíu löndum.
Alls hafa 2.100 tilfelli greinst í Brasilíu en sjúkdómurinn smitast aðallega með moskítóbiti. Fáir látast af völdum veirunnar og aðeins einn af hverjum fimm er talinn sýna einkenni hennar, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
WHO ætlar nú að einbeita sér að lengri tíma áætlun gegn zika en veiran hefur breiðst út um Rómönsku Ameríku, Karíbahafið og víðar.