Angela Merkel hefur tilkynnt flokkssystkinum sínum að hún hyggist sækjast eftir fjórða kjörtímabilinu sem kanslari Þýskalands. Merkel tilkynnti leiðtogum Kristilega demókrataflokksins að hún væri reiðubúin til að leiða flokkinn í næstu kosningum, sem verða líklega haldnar í september eða október 2017.
Merkel er sögð munu tilkynna þetta opinberlega á blaðamannafundi í kvöld.
Hinn 62 ára kanslari hefur stýrt Þýskalandi frá 2005. Ef hún nær endurkjöri og situr fjögur ár til viðbótar, mun hún jafna met Helmuts Kohls, sem var kanslari þegar Berlínarmúrinn féll. Enginn hefur sinnt embættinu lengur.
Ákvörðun Merkel er sögð munu hughreysta marga og boða von um stöðugleika í kjölfar Brexit og sigurs Donalds Trumps í forsetakosningunum vestanhafs.