Komið í veg fyrir árás í Frakklandi

Jólamarkaðir eru vinsælir víða í Evrópu en þessi mynd var …
Jólamarkaðir eru vinsælir víða í Evrópu en þessi mynd var tekin á jólamarkaði í Stokkhólmi í gær. AFP

Sjö eru í haldi frönsku lögreglunnar vegna gruns um að undirbúa hryðjuverkaárás í landinu. Samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum tókst að koma í veg fyrir að árás yrði gerð í Frakklandi.

Fjórir voru handteknir í Strassborg aðfararnótt sunnudags af öryggislögreglunni (DGSI) og þrír í Marseille. Samkvæmt frétt Le Parisien eru fimm þeirra á aldrinum 29-37 ára og eru allir þeir sem voru handteknir enn í haldi lögreglu. Mennirnir liggja undir grun um að hafa verið að undirbúa hryðjuverkaárás en þeir biðu eftir vopnasendingu þegar þeir voru handteknir. Í einhverjum miðlum kemur fram að þeir hafi þegar haft vélbyssur í fórum sínum.

Ekki hefur fengist staðfest hvar mennirnir ætluðu að láta til skarar skríða en talað um jólamarkaðinn í Strassborg. Borgaryfirvöld eru mjög á verði enda sprakk sprengja á markaðnum árið 2000. 

Innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, segir að sjömenningarnir séu franskir, frá Marokkó og Afganistan. 

Frétt  mbl.is: Sex handteknir í Frakklandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka