Trump ætlar ekki að láta rannsaka Clinton

Donald Trump og Hillary Clinton. Trump telur Clinton hafa gengið …
Donald Trump og Hillary Clinton. Trump telur Clinton hafa gengið í gegnum nóg og ætlar ekki að láta sérstakan saksóknara skoða mál hennar. AFP

Donald Trump mun ekki fylgja eftir rannsókn á Hillary Clinton, sem var forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, vegna góðgerðarstofnunnar fjölskyldu hennar eða notkun Clinton á einkanetfangi sínu á þeim tíma er hún gegndi embætti utanríkisráðherra.

Trump hótaði ítrekað að fylgja eftir slíkri rannsókn á meðan að á kosningabaráttunni stóð og hrópuðu fylgismenn hans gjarnan á kosningafundum að það ætti að „læsa“ Clinton inni.

Sjónvarpsstöðin MSNBC hefur eftir ónefndum heimildamanni að Trump telji nú að Clinton „sé búin að ganga í gegnum nóg.“ Kellyanne Conway, einn helsti ráðgjafi Trump staðfesti við sjónvarpsstöðina að þetta sé rétt.

„Hillary Clinton þarf enn að horfast í augu við það að meirihluti Bandaríkjamanna telur hana ekki vera heiðarlega eða traustsins virði, en ef Donald Trump getur hjálpað henni að græða sárin þá er það kannski af hinu góða,“ sagði Conway í þættinum Morning Joe á MSNBC.

Á meðan á kosningabaráttunni stóð leiddu skoðanakannanir ítrekað í ljós að margir Bandaríkjamenn töldu Clinton ekki vera traustvekjandi.

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) rannsakaði notkun Clinton á einkanetfangi hennar er hún gegndi embætti utanríkisráðherra, en taldi engan grundvöll fyrir ákæru. Góðgerðasamtökin The Clinton Foundation hafa einnig verið undir smásjánni vegna framlaga sem samtökin hafa fengið frá erlendum styrktaraðilum sem mættu velvild utanríkisráðuneytisins er Clinton fór með völd þar.

Fréttavefur Reuters bendir á að hætti Trump við að skipa sérstakan saksóknara til að kafa ofan í mál Clinton verði það algjör u-beygja frá þeirri afstöðu sem hann vitnaði nær daglega í kosningafundum, þar sem hann vísaði til hennar sem „óheiðarlegu Hillary“ [e. Crooked Hillary].

Öfgahægri fréttavefurinn Breitbart hefur þegar ásakað Trump um að ganga á bak orða sinna. „Svikin loforð: Trump vill ekki fylgja eftir tölvupóstaásökunum gegn Clinton“ sagði á forsíðu vefjarins í dag. Steve Bannon, sem tók við sem kosningastjóri Trump í sumar og sem nú hefur verið skipaður helsti stjórnmálaráðgjafi hans, var áður stjórnarformaður Breitbart.

Judicial Watch, íhaldssöm samtök sem hafa haft sig mikið frammi um að Clinton verði rannsökuð, hvöttu Trump einnig til að efna loforð sitt.

Bandaríkjaþing getur ákveðið að hefja rannsókn á málum Clinton, óháð því hvort Trump ákveði að fá sérstakan saksóknara til að skoða málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert