Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur bakkað með nokkur af róttækustu kosningaloforðum sínum. Auk þess afneitaði hann öfgakenndum þjóðernisskoðunum sem hafa verið boðaðar af hluta stuðningsmanna Trump sem tengjast hreyfingu hvítra þjóðernissinna sem gengur undir nafninu „Alt-right.“ Þetta kom fram í viðtali Trump hjá New York Times í kvöld.
Trump gagnrýndi í viðtalinu ráðstefnu þjóðernissinna í Washington síðustu helgi þar sem ráðstefnugestir heilsuðu að sið nasista og gagnrýndu gyðinga. Einn þeirra sem sagður hefur verið hugmyndasmiður hreyfingarinnar er Steve Bannon, sem Trump skipaði sem aðalráðgjafa sinn nýlega. Sagði Trump að ef hann teldi Bannon vera rasista eða félaga í „Alt-right“-hreyfingunni hefði honum ekki dottið í hug að ráða Bannon.
Trump sagði einnig í viðtalinu að hann myndi ekki ganga á eftir því að láta rannsaka mótframbjóðanda sinn, Hillary Clinton, vegna góðgerðarstofnunar fjölskyldu hennar eða notkunar Clinton á einkanetfangi sínu á þeim tíma er hún gegndi embætti utanríkisráðherra. Í kosningabaráttu sinni hafði hann aftur á móti oft kallað „læsum hana inni“ og lofað að ákæra Clinton. Sagðist hann í viðtalinu aftur á móti hafa samúð með Clinton og að hann vildi horfa til framtíðar en ekki í baksýnisspegilinn.
Þá sagði Trump að hann hefði einnig breytt um skoðun varðandi pyntingar til að fá upplýsingar frá föngum í tengslum við möguleg hryðjuverk. Hafði Trump áður talað fyrir vatnspyntingum (e. waterboarding), en eftir samtal við fyrrverandi herforingja sagði Trump að hann hefði skipt um skoðun.
Þegar Trump var spurður út í hlýnun jarðar og umhverfismál vildi hann ekki endurtaka fyrri orð sín um að hann myndi rifta Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál sem var undirritað af 195 löndum í desember síðastliðnum. Þá sagðist hann vera að skoða málið nánar og væri með opinn huga varðandi málefnið.
Trump hefur verið talsvert gagnrýndur fyrir að ætla ekki að slíta á tengsl sín við viðskiptalífið þegar hann flytur inn í Hvíta húsið. Áformar hann að koma fyrirtækjum sínum í stjórn barna sinna, en hingað til hafa forsetar í Bandaríkjunum alla jafna sett eigur sínar í svokallaðan blindan sjóð sem stjórnað er af utanaðkomandi aðilum. Trump hefur aftur á móti hafnað því að fara þá leið.
Sagði hann í viðtalinu að gífurlega erfitt yrði að selja eignir sínar þar sem um væri að ræða fasteignir. Þá myndu börn hans sjá um reksturinn en ekki hann. Sagði hann gagnrýnendur í raun vilja koma í veg fyrir samskipti sín við börnin sín með kröfum um fjarlægð milli rekstursins og embættisins.
Þá lokaði hann ekki á að tengdasonur sinn, Jared Kushner, kæmi inn í Hvíta húsið, en að í stað þess að það væri ráðherraembætti gæti hann orðið að ráðgjafa í málefnum Mið-Austurlandanna og friðarumleitanna þar. Sagði hann Kushner, sem er gyðingur, þekkja vel til svæðisins og vera hæfan til að koma á friði þar.