Karlmaður á sextugsaldri var í dag fundinn sekur um að hafa myrt bresku þingkonuna Jo Cox, viku fyrir Brexit-þjóðaraatkvæðagreiðsluna, í árás sem framin var í pólitískum tilgangi.
Thomas Mair, 53 ára, fékk lífstíðardóm fyrir morðið, án möguleika á reynslulausn.
„Þar sem hún var þingmaður þá hefur glæpur þinn aðra þýðingu, sem kallar á sérstaka refsingu,“ sagði dómarinn Alan Wilkie við Mair í dag, þegar hann gaf út refsinguna á hendur honum.
„Það leikur enginn vafi á því að morðið var framið til að skjóta styrkari stoðum undir pólitískan málstað.“
Kviðdómur við dómstólinn í London sakfelldi Mair fyrir að hafa ítrekað skotið og stungið Cox, tveggja barna móður, þegar hún kom á bókasafnið í Birstall í Norður-Englandi til að hitta kjósendur sína á fundi.
Ekki sást bregða fyrir tilfinningum á andliti Mair þegar dómurinn var kveðinn upp.
Kviðdómendur höfðu áður heyrt vitnisburð um að Mair hefði öskrað „Bretland fremst“ (e. „Britain first“) á meðan hann skaut hana þremur skotum og stakk til viðbótar fimmtán sinnum.
Eftir að dómurinn var kveðinn upp, sagði ekkill Cox, Brendan, að morðið hefði verið pólitískt hryðjuverk.
„Við höfum engan áhuga á þeim sem framdi verknaðinn, við finnum aðeins til vorkunnar gagnvart honum,“ bætti hann við. „Jo var áhugasöm um alla, ekki drifin áfram af sjálfselsku heldur löngun til að hjálpa öðrum.“
Rannsakendur fundu á heimili Mair mikið safn bóka um hernaðarsögu Þýskalands, helförina og kynþáttakenningar nasista, ásamt styttu af erni Þriðja ríkisins.
Sjá mátti þá að við leit á vefnum hafði Mair spurt spurningarinnar, „Er 22 kalíbera kúla nógu banvæn til að drepa með einu skoti í mannshöfuð?“
Morðið á Cox, sem hafði varið réttindi innflytjenda og flóttafólks, skók Bretland og leiddi til þriggja daga hlés á kosningabaráttunni í aðdraganda Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunnar, sem haldin var viku síðar.