Frumvarp, sem veitir breskum stjórnvöldum nær fordæmalausar heimildir til eftirlits með borgurum sínum, var leitt í lög á þingi landsins á fimmtudag. Fregnir af lögunum hafa ekki farið hátt, enda var frumvarpið samþykkt næstum án nokkurra mótmæla stjórnarandstöðunnar.
Í lögunum, sem nefnast Investigatory Powers Act, felast, eins og nafnið gefur til kynna, alls kyns tæki og tól fyrir leyniþjónustur landsins til að njósna um borgara sína. Og hvergi annars staðar í Vestur-Evrópu eða í Bandaríkjunum hafa yfirvöld fengið jafn víðtækar heimildir, að því er fram kemur í umfjöllun breska dagblaðsins Guardian.
Segir þar að leyniþjónustur og lögregla hafi í upphafi árs byrjað að búa sig undir að minnsta kosti einhverja mótstöðu, og þannig æft rökfærslur sínar fyrir komandi umræðu í samfélaginu.
En á endanum, andspænis sinnuleysi almennings og brotakenndri stjórnarandstöðu, þurfti ríkisstjórnin ekki að gefa neitt markvert eftir af ákvæðum hinna nýju laga.
Landflótta uppljóstrarinn Edward Snowden segir eftirlitið það mesta í sögu vestræns lýðræðis, og í raun sé það öfgakenndara en í mörgum alræðisríkjum.
Árið 2013 afhjúpaði Snowden hversu umfangsmikið eftirlit Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna og hliðstæð stofnun hennar í Bretlandi, GCHQ, hafa með borgurum landa sinna.
Og enskumælandi löndin eru ekki einsdæmi. Þó ekki þurfi að seilast langt til að minnast gríðarlegs eftirlits Stasi-leynilögreglunnar í Austur-Þýskalandi samþykkti þýska þingið nýlega að veita leyniþjónustum þar í landi auknar eftirlitsheimildir.
Kjör Donalds Trump til forseta Bandaríkjanna gæti þá reynst mikil afturför fyrir friðhelgi einkalífsins. Í kosningabaráttunni lét hann ýmis ummæli falla sem bentu til að hann myndi vilja notfæra sér vald leyniþjónusta til að fylgjast með pólitískum andstæðingum sínum.
Ein af mörgum neikvæðum hliðum hinnar nýju löggjafar er sú að henni mistekst að veita heimildarmönnum blaðamanna nægilega vernd, sem gæti dregið úr uppljóstrunum um ýmiss konar misferli.
Einhverjir hafa bent á það litla jákvæða sem þó fylgir lögunum, en í þeim er í fyrsta sinn á skýran hátt gerð grein fyrir þeim heimildum sem leyniþjónustur og lögregla hafa. Innbrot þeirra í tölvur og farsíma eru nú heimil samkvæmt lögum, auk þess sem þeim er fenginn aðgangur að miklu magni persónulegra gagna, jafnvel þó viðkomandi manneskja liggi ekki undir grun um neitt saknæmt.
Og í raun eru nú þær aðferðir gerðar löglegar, sem lögregla og leyniþjónustur höfðu notast við í fjölda ára án þess þó að greina almenningi eða þinginu frá því. Í október úrskurðaði þannig sérstakur rannsóknardómstóll í Bretlandi, að leyniþjónusturnar MI6, MI5 og GCHQ hefðu ólöglega safnað gríðarlegu magni persónuupplýsinga í heil sautján ár.
Eitt er það við nýju lögin sem vakið hefur hvað mesta athygli, en það er að netveitum og símafyrirtækjum geta verið neyddar til að útbúa nettengingarskrár fyrir alla notendur sína, og geyma þær í að minnsta kosti ár. Á þeim skrám verður hægt að sjá allar þær vefsíður sem notandinn hefur skoðað, og hvenær.
Lögregla hefur lagt áherslu á að töluvert skrifræði muni fylgja því að fá leyfi fyrir slíku í hverju tilfelli, sem ætti þá að virka sem hemill á nokkurs konar misnotkun.
En aðgengi að þess háttar upplýsingum mun líkast til reynast yfirvöldum svo gagnlegt, samkvæmt umfjöllun Ars Technica, að freistingin til að blaða í nettengingarskrám fleiri notenda verður mikil.
Heather Brooke, prófessor í blaðamennsku við City-háskólann í London, sló strax varnagla við lögunum þegar þau voru kynnt af þáverandi innanríkisráðherranum Theresu May, núverandi forsætisráðherra.
„Ég hélt ég myndi aldrei segja þetta, en George Orwell skorti framtíðarsýn,“ skrifaði Brooke í Guardian fyrir rúmu ári. „Njósnararnir hafa gengið lengra en hann hefði getað ímyndað sér, og búið til, án lýðræðislegs leyfis, hið fullkomna eftirlitsbúr (e. Panopticon) fyrir borgarana. Nú vonast þeir til að breskur almenningur muni leyfa því að verða að lögum.“
Sú varð raunin nú á fimmtudag, eins og áður var getið.