Fyrrverandi aðalritstjóri tímaritsins Séð og heyrt í Danmörku, Henrik Qvortrup, og heimildarmaður þess, Peter Bo Henriksen, voru í dag dæmdir í fangelsi af dómstóli í bænum Glostrup fyrir að hafa notað stolnar upplýsingar um kortanotkun frægra einstaklinga, þar á meðal einstaklinga í dönsku konungsfjölskyldunni og stjórnmálamanna,til þess að fylgjast með ferðum þeirra.
Fram kemur á fréttavef danska ríkisútvarpsins DR að Qvortrup hafi verið dæmdur í 15 mánaða fangelsi, þar af 12 mánuði skilorðsbundna, og Henriksen hafi fengið 12 mánaða dóm, þar af sex mánuði skilorðabunda.
Frétt mbl.is: Martröð fræga fólksins
Arftaki Qvortrups á stóli aðalritstjóra, Kim Henningsen, var dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi og 200 klukkustunda samfélagsvinnu. Fram kemur í dómsorði að Henningsen hafi getað stöðvað þessi vinnubrögð en hafi þess í stað haldið áfram samstarfinu við Henriksen. Samstarfið við Henriksen stóð yfir á árunum 2008-2011.
Tveir blaðamenn, Ken Rasmussen og Kasper Kopping, fengu hvor um sig fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm og 100 tíma samfélagsvinnu. Vægari dómur yfir þeim er rökstuddur með því að þeir hafi ekki borið ritstjórnarlega ábyrgð á vinnubrögðunum og hafi framfylgt fyrirskipunum ritstjórans.