Yfirvöld í Kólumbíu og skæruliðasamtökin FARC hafa undirritað friðarsamkomulag sem á að binda endi á hálfrar aldar skærur í landinu þar sem um 260 þúsund manns hafa látist, 6,9 milljónir hafa yfirgefið heimili sín og ekkert hefur spurst til 45 þúsund manns.
Þetta er önnur tilraunin til að ná sáttum í málinu, en í október var undirritað álíka samkomulag sem var síðar hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu, en niðurstaðan var 50,21% á móti 49,78%. Aðeins munaði 54 þúsund atkvæðum á milli fylkinganna. Helsta atriðið sem íbúar voru ósáttir með var að uppreisnarmönnum verði veitt sakaruppgjöf.
Í þetta skiptið fer samningurinn hins vegar ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu heldur mun þingið þurfa að samþykkja hann. Juan Manuel Santos, forseti landsins sagði við undirritunina í dag að þetta væri klárlega samningur sem myndi standa. Santos fékk fyrr á þessu ári friðarverðlaun Nóbels fyrir friðarviðræðurnar.
Samkvæmt samkomulaginu munu Sameinuðu þjóðirnar taka við öllum vopnum samtakanna og verður þeim eytt. Verður þetta gert á næstu 150 dögum, en í framhaldinu munu FARC samtökin hætta að vera til sem vopnuð samtök.
Ekki eru allir sáttir með samkomulagið og mótmælti fólk við undirritunina í höfuðborginni Bogata.