Friðarsamkomulag við FARC undirritað

Yfirvöld í Kólumbíu og skæruliðasamtökin FARC hafa undirritað friðarsamkomulag sem á að binda endi á hálfrar aldar skærur í landinu þar sem um 260 þúsund manns hafa látist, 6,9 millj­ón­ir hafa yf­ir­gefið heim­ili sín og ekk­ert hef­ur spurst til 45 þúsund manns.

Þetta er önnur tilraunin til að ná sáttum í málinu, en í október var undirritað álíka samkomulag sem var síðar hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu, en niðurstaðan var 50,21% á móti 49,78%. Aðeins munaði 54 þúsund at­kvæðum á milli fylk­ing­anna. Helsta atriðið sem íbú­ar voru ósátt­ir með var að upp­reisn­ar­mönn­um verði veitt sak­ar­upp­gjöf.

Í þetta skiptið fer samningurinn hins vegar ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu heldur mun þingið þurfa að samþykkja hann. Juan Manuel Santos, forseti landsins sagði við undirritunina í dag að þetta væri klárlega samningur sem myndi standa. Santos fékk fyrr á þessu ári friðarverðlaun Nóbels fyrir friðarviðræðurnar. 

Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, og Timoleon Jimenez (gengur undir …
Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, og Timoleon Jimenez (gengur undir nafninu Timochenko), leiðtogi FARC, takast í hendur við undirritunina í dag. AFP

Samkvæmt samkomulaginu munu Sameinuðu þjóðirnar taka við öllum vopnum samtakanna og verður þeim eytt. Verður þetta gert á næstu 150 dögum, en í framhaldinu munu FARC samtökin hætta að vera til sem vopnuð samtök.

Ekki eru allir sáttir með samkomulagið og mótmælti fólk við undirritunina í höfuðborginni Bogata.

Samkomulagið undirritað.
Samkomulagið undirritað. AFP
Fjölmargir mótmæltu samkomulaginu í höfuðborginni.
Fjölmargir mótmæltu samkomulaginu í höfuðborginni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert