Kim Henningsen, fyrrum aðalritstjóri tímaritsins Séð og heyrt í Danmörku, er ekki með slæma samvisku yfir þætti sínum í kortanjósnum blaðsins. Þetta kemur fram í frétt Jyllands-Posten um málið.
Henningsen var í dag dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi og 200 klukkustunda samfélagsvinnu fyrir sinn þátt í málinu. Hann hafði um árabil greitt tæknistarfsmanni hjá kortafyrirtækinu IBM/Nets fyrir að upplýsingar um kortanotkun þekktra einstaklinga.
„Hvað mig varðar, þá breytir dómurinn engu, utan þess að mér finnst leitt að vera ekki með hreint sakavottorð,“ sagði Henningsen við Jyllands-Posten. „Hann setur hins vegar engan blett á samvisku mína.“
Frétt mbl.is: Fangelsisdómar fyrir kortanjósnir
Dómstóllinn í Glostrup fann sannanir fyrir því að tæknimaðurinn braut ítrekað lög er hann notaði aðgangsorð annarra starfsmanna fyrirtækisins í leitinni að upplýsingum um fræga fólkið.
Henningsen hefur sagt ítrekað í gegnum réttarhöldin, líkt og aðrir starfsmenn blaðsins sem voru kærðir, að hann hafi ekki vitað að hann væri að brjóta lög. „Mér þykir miður að menn telji að ég hefði átt að vita að starfsmaðurinn nánast braust inn hjá fyrirtækinu þar sem hann starfaði. Ég sé ekki hvernig ég hefði átt að vita það, en þetta er niðurstaða dómstólsins,“ sagði Henningsen.
Frétt mbl.is: Martröð fræga fólksins
„Ef heimildamaður okkar hefði setið við næsta borð og haft aðgang að upplýsingunum án þess að grípa til þessara ráða, þá hefði þetta aldrei orðið dómsmál,“ bætti hann við.
Henningsen telur því enga ástæðu til að breyta vinnuaðferðum sínum, utan þess að hann hætti mögulega að greiða heimildamönnum undir borðið. „Ég mun væntanlega gefa greiðsluna upp í næsta skipti, en að öðru leyti þá myndi ég gera þetta aftur. Ég hef eftir því sem ég best tel ekki gert neitt ólöglegt.“
„Ég nýtti mér virkilega góðan heimildamann og það er verkefni hvers blaðamanns, að hafa aðgang að góðum heimildamönnum,“ sagði Henningsen.