Hæstiréttur Noregs hafnaði í dag beiðni landflótta uppljóstrarans Edward Snowden um að hann gæti heimsótt Noreg án þess að eiga á hættu að vera framseldur til Bandaríkjanna. Frá þessu er greint á fréttavef BBC.
Snowden höfðaði mál í apríl til að reyna að tryggja að hann gæti tekið á móti málfrelsisverðlaunum í Noregi, án þess að eiga það á hættu að verða framseldur. Héraðsdómur Oslóar hafði þegar hafnað beiðninni, sem og norskur áfrýjunardómstóll.
Norsk deild PEN Club samtakanna hafði boðið Snowden til Oslóar til að veita Ossietzky-verðlaununum viðtöku, en þau eru veitt þeim sem þykja hafa lagt mikið í sölurnar í þágu tjáningarfrelsisins.
Snowden var greinandi hjá bandarísku þjóðaröryggisstofnuninni (NSA) er hann ljóstraði upp um ýmis leynigögn bandarískra stofnana. Þar í landi á hann yfir höfði sér ákærur sem gætu orðið til þess að hann þarf að afplána allt að 30 ára fangelsisdóm.
Lögfræðingar Snowden, sem hefur dvalið í Rússlandi frá 2013, segja það gefið mál að hann verði fundinn sekur og dæmdur til fangelsisvistar verði hann framseldur til Bandaríkjanna.
Hæstiréttur Noregs sagði að dómstóllinn gæti ekki úrskurðað um lagalegan rétt beiðni bandarískra stjórnvalda til að fá Snowden framseldan, þar sem enginn slík beiðni hefði enn verið lögð fram.