Kveikt í verki Lars Vilks

Sænski skopmyndateiknarinn Lars Vilks.
Sænski skopmyndateiknarinn Lars Vilks. AFP

Kveikt var í verki sænska listamannsins Lars Vilks í Kullaberg á Skåne í gær og er brennuvargsins leitað. Vilks hefur farið huldu höfði í mörg ár eftir að hafa vakið mikla reiði meðal íslamskra öfgamanna eft­ir að hann birti mynd af Múhameð spá­manni í hunds­líki árið 2007.

Ítrekað hefur verið reynt að ráða hann af dögum og hefur hann því verið í felum undir stöðugu eftirliti sænsku öryggislögreglunnar undanfarin ár.

Svíar þekkja hann ekki síður fyrir verk sitt, Nimis, trélistaverkið í Kullaberg en í gær var tilkynnt um að kveikt hafi verið í verkinu sem er gríðarlega stórt. Um fjórðungur þess er ónýtur eftir eldsvoðann.

Mattias Johansson slökkviliðsstjóri segir að turninn í verkinu hafi gjöreyðilagst en annað sé í lagi. Verkið hefur fengið að vera í friði undanfarin ár en áður var ítrekað reynt að eyðileggja það. Margir ferðamenn leggja leið sína þangað á hverju ári.

Vilks hóf að reisa Nimis á níunda áratug síðustu aldar og er verkið eina innsetningin af þessu tagi í Svíþjóð en rekaviður er notaður við verkið.

Í lok september voru fjórir Danir sýknaðir af ákæru um að hafa aðstoðað Omar El-Hus­sein sem drap kvik­mynda­gerðarmann og ör­ygg­is­vörð, sem var gyðing­ur, í tveim­ur árás­um í fe­brú­ar í fyrra. Menn­irn­ir fjór­ir höfðu verið ákærðir fyr­ir „hryðju­verka­brot“. Þeir voru sagðir hafa aðstoðað Omar El-Hus­sein í aðdrag­anda síðari árás­ar­inn­ar sem átti sér stað fyr­ir utan bæna­hús gyðinga.

El-Hus­sein hóf skot­hríð í menn­ing­arniðstöð þar sem sænski skop­mynda­teikn­ar­inn Lars Vilks var stadd­ur til að taka þátt í ráðstefnu um tján­ing­ar­frelsi. El-Hus­sein lést í skot­b­ar­daga við dönsku lög­regl­una nokkr­um klukku­stund­um síðar í Nør­re­bro.

Frétt SvD

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert