Bandaríkjaher hefur skipað frumbyggjum og öðrum mótmælendum að hafa sig á brott frá tjaldbúðum í Norður-Dakóta þar sem þeir hafa mótmælt framkvæmdum við olíuleiðslu um margra mánaða skeið. Lögreglan hefur verið harkalega gagnrýnd fyrir meðferð hennar á frumbyggjunum.
Rúmlega fimm hundruð manns hafa verið handteknir í tengslum við mótmælin gegn Dakota Access-olíuleiðslunni sem frumbyggjarnir telja að muni eyðileggja drykkjarvatn og menningarlega mikilvæga staði þeirra frá því í ágúst. Svonefndar Oceti Satowin-tjaldbúðir Sioux-ættbálkanna frá Standing Rock og Cheyenne-á eru sagðar stærsta samkoma bandaríska frumbyggja í heila öld.
Verkfræðideild Bandaríkjahers sendi höfðingja Standing Rock-ættbálksins bréf í síðustu viku um að lokað yrði fyrir aðgang almennings að öllum svæðum í eigu alríkisstjórnarinnar norður af Cannonball-ánni „af öryggisástæðum“ frá og með 5. desember. Þar á meðal er svæðið þar sem tjaldbúðirnar sem hafa verið nefndar Eldar sjö ráða eru.
Vísar herdeildin til þess að vetur sé að skella á auk átaka á milli lögreglu og mótmælenda sem harka hafi færst í. Ekki standi til að fjarlægja fólk með valdi en þeir sem verða um kyrrt eftir 5. desember verði þar í leyfisleysi og gætu átt yfir höfði sér saksókn. Ekkert fararsnið er hins vegar á frumbyggjunum.
Lögreglumenn hafa notað táragas, skotið gúmmíkúlum og beitt háþrýstidælum til að sprauta vatni á mannfjöldann í nístingsköldu veðri. Skipuleggjendur segja að í það minnsta sautján mótmælendur hafi verið færðir á sjúkrahús, meðal annars vegna ofkælingar og einn með alvarleg meiðsli á hendi. Einn lögreglumaður er sagður hafa slasast í átökunum.
Yfirvöld í Norður-Dakóta telja að fólk ætti ekki að fá að vera á svæðinu án leyfis og segja að mótmælin hafi kostað ríkið tuttugu milljónir dollara í aukinn löggæslukostnað.
Frumbyggjarnir hafa reynt að stöðva framkvæmdir við olíuleiðsluna sem á að liggja um hátt í tvö þúsund kílómetra langa leið í gegnum Norður- og Suður-Dakóta, Iowa og Illinois með því að leita til dómstóla en þær tilraunir hafa ekki borið árangur sem erfiði. Ættbálkarnir telja að landið þar sem þeir hafa slegið upp tjaldbúðum sé réttilega í þeirra eigu samkvæmt aldargömlum samningi við bandarísku alríkisstjórnina.
Olíuleiðslan á að flytja hálfa milljón tunna af hráolíu í aðra leiðslu í Patoka í Illinois á dag. Talsmenn framkvæmdanna segja að fylgst verði grannt með lekum úr leiðslunni og að hún sé mun öruggari leið til að flytja olíuna en flutningabílar og lestir.
Barack Obama, fráfarandi forseti Bandaríkjanna, hefur sagt að til greina komi að breyta leið olíuleiðslunnar til að koma til móts við frumbyggjana. Dave Archambault, höfðingi Standing Rock-ættbálksins, hefur tekið vel í þá hugmynd að því gefnu að nýja leiðin liggi ekki um verndarsvæði hans.
Forstjóri fyrirtækisins sem stendur að framkvæmdunum, Energy Transfer Partners, hefur aftur á móti sagt að ekki komi til greina að breyta leið leiðslunnar. Það veldur frumbyggjunum einnig áhyggjum að Donald Trump, verðandi forseti, er einn hluthafa Energy Transfer Partners. Þegar hann tekur við sem forseti geti hann haft áhrif á framkvæmdirnar.