Forseti borgarstjórnar Aleppo grátbiður sýrlensku stjórnina um að koma upp öruggri leið út úr borginni, sem almennir borgarar geti nýtt sér til að flýja.
„Íbúar Aleppo hrópa á ríki heims að hjálpa sér. Í nafni mannúðar leyfið almennum borgurum að yfirgefa borgina. Hjálpið borgurunum! Verndið almenna borgara!“ sagði Brita Hagi Hasan á fréttamannafundi með Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakklands.
Hasan hvatti til þess að strax yrði komið upp öruggum leiðum út úr borginni svo um 250.000 íbúar austurhlutans, sem hafa búið við umsátursástand undanfarin misseri, geti komist á brott.
Sýrlenski stjórnarherinn og bandamenn hans tilkynntu um helgina að þeir hefðu náð hverfum í austurhluta borgarinnar á sitt vald. Stjórnarherinn hefur staðið fyrir hörðu áhlaupi á austurhlutann sem hann ætlar sér að ná úr höndum uppreisnarmanna.
Samtökin Syrian Observatory for Human Rights, sem fylgjast með ástandi mannréttindamála í Sýrlandi, greindu frá því í gær að sýrlensk stjórnvöld hefðu hindrað hundruð manna í að flýja austurhluta Aleppo.
Hasan hefur ekki getað komist aftur til Aleppo frá því í sumar. Hann sagði tugi almennra borgara hafa verið drepna í sprenginum stjórnarhersins í gær og að stjórnarherinn stæði nú fyrir hefndaraðgerðum í þeim hverfum sem hann hefði náð á sitt vald.
„Stjórnarherinn hefur náð nýjum svæðum í Aleppo. Við höfum skráðar sannanir fyrir aftökum og hefndaraðgerðum,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Hasan. Hann bætti við að karlar undir 40 ára væru í sérstakri hættu.
Frakkar, sem hafa stutt baráttu uppreisnarmanna gegn stjórn Bashars al-Assad Sýrlandsforseta, hafa óskað eftir fundi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um málið. Sagði Ayrault alþjóðasamfélagið ekki geta horft framhjá blóðbaðinu.
„Okkar fyrsta skylda er að vernda almenna borgara og setja upp raunhæfar aðgerðir,“ sagði Ayrault. „Við verðum að sjá hvað Öryggisráðið getur gert til að bjarga lífi fólks. Allir eru aðþrengdir en við getum ekki horft framhjá þessu.“