Saka erlend ríki um skipulagðar netárásir

Rússneska leyniþjónustan segir netárásina hafa átt að beinast gegn öllum …
Rússneska leyniþjónustan segir netárásina hafa átt að beinast gegn öllum stærstu bönkum landsins. AFP

Yfirvöld í Rússlandi greindu frá því í dag að þau hefðu komið upp um áætlun erlendra njósnastofnanna til að valda glundroða í bankakerfi landsins með því að standa að skipulögðum netárásum og útbúa falskar fréttir á samfélagsmiðlum sem greindu frá því að rússneskir bankar væru að verða gjaldþrota.

Reuters-fréttastofan hefur eftir rússnesku leyniþjónustunni (FSB) að netþjónarnir sem nota átti í árásunum séu staðsettir í Hollandi og skráðir á úkraínska hýsingarfyrirtækið BlazingFast.

Árásinni fylgt eftir með fjöldasendingu á sms skilaboðum

Árásirnar, sem til stóð að hæfust á mánudag, áttu að beinast gegn öllum stærstu bönkum landsins.

„Áætlunin gerði ráð fyrir að tölvurárásinni yrði fylgt eftir með fjöldasendingu á sms skilaboðum og birtingu á samfélagsmiðlum um kreppu í rússneska bankakerfinu, gjaldþrot og leyfissviptingar,“ sagði í tilkynningu frá leyniþjónustunni.

„ FSB hefur gripið til nauðsynlegra aðgerða til að afnema þessa ógn í garð rússnesks efnahags og upplýsingaöryggis.“

Ekki kom fram í yfirlýsingunni leyniþjónustur hvaða ríkja ættu að standa að baki hinni meintu ráðagerð.

Reuters hefur eftir Seðlabanka Rússlands að þar hafi menn heyrt af ógninni og að bankinn sé í stöðugu sambandi við leyniþjónustuna. Í yfirlýsingu bankans segir að drög hafi verið lögð að gagnárás. „Ástandið er stöðugt og bankar hafa fengið nauðsynlegar ráðleggingar,“ sagði í yfirlýsingunni.

Tæknilega mögulegt með hvaða netþjóni sem er

Anton Onoprichuk, forstjóri BlazingFast, sagði hvorki FSB né leyniþjónustur annarra ríkja hafa haft samband við fyrirtækið. Hann kvaðst bíða eftir frekari upplýsingum svo fyrirtæki sitt gæti rannsakað málið. Spurður hvort hægt væri að nota netþjónana til slíkrar tölvuárásar sagði hann: „Tæknilega séð er það mögulegt. Það er hægt að gera þetta frá hvaða hýsingafyrirtæki sem er þar sem maður hefur leigt netþjón. Þaðan er hægt að gera árás á hvað sem maður vill og í 99% tilfella veit enginn neitt fyrr en eftir á.“

Yfirvöld í Rússlandi hafa verið vakandi fyrir árásum erlendra tölvuþrjóta frá því að bandarísk yfirvöld sökuðu þau um að standa að baki netárásum á bandaríska Demókrataflokkinn í forsetakosningunum nú í haust. Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, sagði við það tilefni að Bandaríkin myndu bregðast við árásum Rússa á „viðeigandi hátt“.

Í kjölfarið hefur verið greint frá netárásum á nokkrar rússneskar stofnanir, þó óljóst sé hvort þær tengist á einhvern hátt deilu stjórnvalda ríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert