Vinsælasti flokkur Ítalíu, Fimm stjörnu hreyfing grínistans Beppe Grillo, er sagður hafa ofið net vefsíðna og samfélagsmiðla þar sem gervifréttum, samsæriskenningum og áróðri hliðhollum rússneskum stjórnvöldum er deilt til milljóna manna. Það gæti haft áhrif á þjóðaratkvæðagreiðsluna þar um helgina.
Skoðanakannanir benda til þess að Fimm stjörnu hreyfingin sé vinsælasta stjórnmálaafl Ítalíu en flokkurinn er þegar með hundrað þingmenn á ítalska þinginu. Grillo stofnaði hreyfinguna ásamt netfrumkvöðlinum Gianroberto Casaleggio en henni hefur verið fleytt áfram af sömu straumum andstöðu gegn ríkjandi kerfi og þjóðernishyggju og tryggði sigur Donalds Trump í forsetakosningunum í Bandaríkjunum og Brexit í Bretlandi.
Fréttamenn vefsíðunnar Buzzfeed greina nú frá því að rannsókn þeirra hafi leitt í ljós að forysta flokksins ráði yfir fjölda vefsíðna sem titli sig „sjálfstæðar“ fréttasíður og samfélagsmiðlasíður sem dreifi efni hver frá annarri. Síðurnar éti upp málflutning flokksins, blekkingar og árásir á pólitíska andstæðinga hennar, ekki síst forsætisráðherrann Matteo Renzi. Ein þessara síðna, TzeTze, sé með 1,2 milljónir fylgjenda á Facebook.
Á meðal gervifrétta sem þessar síður hafi birt séu fullyrðingar um að bandarísk stjórnvöld séu að fjármagna smyglara á laun til að smygla flóttamönnum frá Norður-Afríku til Ítalíu og að Barack Obama vilji koma sýrlensku stjórninni frá til að skapa óróleika á svæðinu til að koma í veg fyrir að Kínverjar fái aðgang að olíu. Heimildir margra þessara frétta séu vefsíður á vegum rússneskra stjórnvalda.
Grillo, sem hefur líkt hreyfingu sinni við Trump og tók kjöri hans fagnandi, er sjálfur með vinsælustu bloggsíðu Ítalíu og með tæplega tvær milljónir fylgjenda á Facebook. Flokkur hans er nú sagður hafa beint áróðursvél sinni gegn stjórnarskrárbreytingum sem kosið verður um í þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudag.
Renzi forsætisráðherra hefur sagst ætla að segja af sér ef meirihluti styður ekki breytingartillögur stjórnar hans. Verði sú raunin verður Fimm stjörnu hreyfingin með pálmann í höndunum í þingkosningum í kjölfarið. Síðustu skoðanakannanir sem mátti gera fyrir atkvæðagreiðsluna bentu til þess að andstæðingar breytinganna væru í meirihluta.