Renzi heldur í vonina

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, ásamt eiginkonu sinni, Agnese Landini, á …
Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, ásamt eiginkonu sinni, Agnese Landini, á kjörstað fyrr í dag. AFP

Þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar á Ítalíu hefur verið góð á ítalskan mælikvarða, en um klukkan 19 að staðartíma (kl. 18 að íslenskum tíma) voru 57% kjósenda búin að greiða atkvæði. Pólitísk framtíð Matteo Renzi, forsætisráðherra landsins, mun ráðast í kosningunum.

Renzi hefur heitið því að segja af sér bíði hann lægri hlut, en hann hefur m.a. lagt til að straumlínulaga þingið og koma á miðstýringu í ákveðnum héruðum til að efla, einfalda og bæta stjórnkerfið í landinu.

Um tveir þriðju hlutar kjósenda í norðurhluta landsins voru búnir að mæta á kjörstað í kvöld en þátttakan í suðurhluta landsins er mun minni. Sumir telja að það muni verða Renzi til góðs. 

Kosningaþátttakan þykir góð á ítalskan mælikvarða.
Kosningaþátttakan þykir góð á ítalskan mælikvarða. AFP

Forsætisráðherrann var í góðu skapi er hann greiddi atkvæði í Toskana í dag, en Renzi á þaðan rætur að rekja. 

„Ertu búinn að ákveða hvað þú munir kjósa, forsætisráðherra?“ sagði kjósandi í léttum dúr við Renzi í kjörstað í bænum Pontassieve.

„Ég er að hugsa málið,“ svaraði Renzi léttur í bragði. 

Stjórnarandstöðuflokkar hafa fordæmt fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá landsins, sem er 68 ára gömul. Þeir segja að breytingarnar ógni lýðræðinu því með þeim verði mikilvægt eftirlit og aðhald á framkvæmdavaldinu fjarlægt. 

Búist er við að endanleg niðurstaða muni liggja fyrir í fyrramálið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert