Ítalir hafna stjórnarskrárbreytingum

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, lagði pólitíska framtíð sína að veði …
Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, lagði pólitíska framtíð sína að veði í þjóðaratkvæðagreiðslunni. AFP

Meirihluti ítalskra kjósenda hefur hafnað breytingum á stjórnarskrá landsins í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fór fram í landinu í dag samkvæmt útgönguspám. Verði þetta niðurstaðan mun Matteo Renzi, forsætisráðherra landsins, sem barðist fyrir breytingunum, segja af sér.

Ítalska ríkissjónvarpið Rai og sjónvarpsstöðin La7 hafa birt útgönguspár þar sem fram kemur að andstæðingar breytinga hafi unnið sigur. Rai segir að 54% kjósenda hafi sagt nei en 46% samþykkt breytingar. La7 er á svipuðum slóðum, þ.e. 56,7% höfnuðu breytingum á móti 43,3% sem kusu með breytingum. 

Er þetta í takti við það sem birst hefur í skoðanakönnunum á Ítalíu fram til 18. nóvember, en þá er fjölmiðlum bannað að birta opinberlega niðurstöðu slíkra kannana. 

Búist er við að Renzi, sem hafði heitið því að segja af sér ef hann myndi bíða lægri hlut, muni brátt ávarpa landsmenn.

Ósigurinn og brotthvarf Renzis er talinn hafa þau áhrif að enn muni ríkja pólitískur óstöðugleiki á Ítalíu auk þess sem órói muni ríkja í efnhagslífi landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert