Grillo krefst kosninga

Forsætisráðherra Ítalíu, Matteo Renzi, hefur sagt af sér eftir að staðfest var að áform hans um breytingar á stjórnarskrá landsins hefðu verið felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

„Reynslu minni af ríkisstjórn lýkur hér,“ sagði Renzi þegar hann ávarpaði blaðamenn í nótt. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu greiddu tæplega 60% atkvæði gegn breytingunum en 40% voru fylgjandi. Kjörsókn var tæplega 70%.

Markaðir hafa tekið afsögn Renzi illa og hafa bæði hlutabréf og gengi evru fallið í morgun. Hins vegar eru engin merki um óðagot enda hafði Renzi ítrekað lagt starf sitt að veði í kosningunum. 

Að sögn Renzi mun hann hitta forseta Ítalíu, Sergio Mattarella, að máli síðar í dag og tilkynna honum formlega um afsögn sína. Mattarella hefur síðan val um tvennt; að mynda nýja ríkisstjórn og ef það tekst ekki getur hann boðað snemmbúnar þingkosningar.

Fimmstjörnubandalagið og leiðtogi þess, Beppe Grillo, segja að boða eigi til kosninga innan viku en töluverðar líkur eru taldar á því að flokkurinn fái langflest atkvæði í komandi kosningum. „Lýðræðið fór með sigur af hólmi,“ skrifaði Grillo á bloggsíðu sína. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka