Þó að framkvæmdir við Dakota Access-olíuleiðsluna hafi verið stöðvaðar í bili óttast frumbyggjarnir sem kalla hana „svarta snákinn“ að ákvörðuninni verði snúið við þegar Donald Trump tekur við sem forseti. „Snákurinn er að reyna að fara af vellinum út í háa grasið,“ segja ein samtök frumbyggja.
Frumbyggjarnir fögnuðu sigri í gær þegar verkfræðideild Bandaríkjahers gaf það út að hún myndi ekki leyfa lagningu olíuleiðslunnar á landsvæði sem hún stjórnar. Mótmæli gegn leiðslunni í Norður-Dakóta hafa staðið yfir frá því í vor en frumbyggjarnir telja leiðsluna ógna drykkjarvatni og helgum stöðum þeirra.
Þessi sigur gæti þó reynst skammgóður vermir því Trump tekur við embætti forseta 20. janúar. Greint hefur verið frá því að hann sé einn hluthafa í Energy Transfer Partners, fyrirtækinu sem stendur að framkvæmdunum.
Samtökin Iktce Wichas Oyate sem hafa veitt mótmælendunum vernd segja að ákvörðunin í gær sé aðeins herbragð til að draga úr eldmóð mótmælenda. Þau vonast til þess að stöðva framkvæmdirnar áður en ný ríkisstjórn tekur við.
„Fleiri ógnanir eru líklegar á komandi ári og við getum ekki hætt fyrr en olíuleiðslan er algerlega sigruð og vatnið okkar og loftslag er öruggt,“ segir Dallas Goldtooth, aðalskipuleggjandi Umhverfisnets frumbyggja.
Talskona Trump svaraði ekki fyrirspurn CNN vegna ákvörðunar verkfræðideildar hersins.