Þrátt fyrir að hafa lofað því að hafa „opinn hug“ um loftslagsmál hefur Donald Trump skipað Scott Pruitt, ríkissaksóknara Oklahoma, sem yfirmann umhverfisstofnunar Bandaríkjanna (EPA). Pruitt hefur náin tengsl við jarðefnaeldsneytisiðnaðinn og hefur barist gegn loftslagsaðgerðum Baracks Obama forseta.
Trump hefur sjálfur lýst því yfir að hann telji loftslagsbreytingar „gabb“ sem fundið var upp af Kínverjum og að hann muni draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu. Í viðtali við ritstjórn New York Times á dögunum sagðist hann þó ætla að hafa „opinn huga“ um málefnið og í vikunni fundaði hann með fyrrverandi varaforsetanum Al Gore sem hefur verið ötull baráttumaður gegn loftslagsbreytingum af völdum manna.
Sú litla vonarglæta sem hafði vaknað um að Trump myndi ef til vill ekki reka eins forneskjulega stefnu í umhverfismálum og fyrri orð hans höfðu bent til slokknaði hins vegar þegar hann skipaði Pruitt sem yfirmann EPA í gær.
Líkt og aðrir félagar hans í Repúblikanaflokknum afneitar Pruitt samhljóða áliti vísindamanna að menn valdi loftslagsbreytingum á jörðinni með losun sinni á gróðurhúsalofttegundum.
„Vísindamenn halda áfram að vera ósammála um hversu mikil hnattræn hlýnun er og tengsl hennar við aðgerðir mannkynsins. Það ætti að hvetja til þeirrar rökræðu í kennslustofum, opinberum vettvangi og í þingsölum. Það ætti ekki að þagga niður í henni með hótunum um ofsóknir. Andóf er ekki glæpur,“ skrifaði Pruitt í íhaldsritið National Review fyrr á þessu ári.
Pruitt var einn nokkurra ríkissaksóknara bandarískra ríkja sem gengu í bandalag með jarðefnaeldsneytisframleiðendum og barðist hatrammlega gegn reglum sem Obama lét EPA gefa út til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá orkuframleiðslu. Þannig höfðuðu 28 ríki mál fyrir alríkisdómstólum til að fá reglunum hnekkt. Búist er við því að málið fari alla leið fyrir hæstarétt Bandaríkjanna.
New York Times greindi frá því fyrir tveimur árum að bréf sem Pruitt sendi í nafni embættis síns til umhverfisstofnunarinnar, fleiri stofnana og Obama forseta hafi í raun verið skrifað af fulltrúum þrýstihópa jarðefnaeldsneytisiðnaðarins. Í því var lýst þeim efnahagslegu raunum sem myndu hljótast af reglum umhverfisstofnunarinnar til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum. Á sama tíma þáði Pruitt framlög frá sumum fyrirtækjanna og þrýstihópanna sem hann vann með.
Búist er við því að tekist verði á um tilnefningu Pruitt í þingnefndinni sem þarf að staðfesta skipan hans í embættið. Öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders, sem á sæti í þingnefndinni, segir það sorglegt og hættulegt að Trump hafi tilnefnt Pruitt nú þegar loftslagsbreytingar séu stærsta umhverfislega hættan fyrir alla jörðina.
„Bandaríska þjóðin verður að krefjast leiðtoga sem eru tilbúnir að breyta orkukerfinu okkar frá jarðefnaeldsneyti. Ég mun mæla af krafti gegn tilnefningu hans,“ lofar Sanders.