Ráðgjafar Donalds Trump sem vinna að valdatöku hans hafa beðið orkumálaráðuneytið um nöfn starfsmanna sem hafa unnið að loftslagsaðgerðum Baracks Obama forseta og upplýsingar um hvaða áætlanir ráðuneytisins skipti sköpum fyrir þær, að sögn bandarískra fjölmiðla.
Fyrri orð Trump um að loftslagsbreytingar séu kínverskt gabb og skipanir hans í ráðgjafateymi sitt og embætti hafa vakið áhyggjur um að hann muni drepa loftslagsaðgerðir Bandaríkjanna.
Bloomberg og Politicio greina nú frá því að ráðgjafar hans hafi óskað eftir nöfnum allra starfsmanna orkumálaráðuneytisins sem hafi fari á loftslagsfundi á vegum Sameinuðu þjóðanna undanfarin fimm ár og þeirra sem hafa átt sæti í samstarfshópum stofnana sem hafa lagt mat á félagslegan kostnað kolefnis. Þær áætlanir hafa verið notaðar sem rökstuðningur fyrir loftslagsreglugerðum.
Frétt Mbl.is: Loftslagsafneitari yfir umhverfismálin
Ráðgjafarnir hafa einnig beðið ráðuneytið um að skýra fyrir þeim hvaða áætlanir þess séu bráðnauðsynlegar loftslagsmarkmiðum Obama forseta.
Óskir Trump-teymisins um upplýsingarnar bætast ofan á áhyggjur af skipan verðandi forsetans á Scott Pruitt, ríkissaksóknara Oklahoma, sem yfirmanns umhverfisstofnunar landsins. Pruitt stendur nú í málaferlum ásamt fleiri ríkjum og þrýstihópum jarðefnaeldsneytisfyrirtækja til að stöðva loftslagsreglugerðir stofnunarinnar.